Lýsing
Snúðormar eru einkennisdýr í fjörum. Þeir eru afar smáir burstaormar í litlum, snúðlaga kalkskeljum sem eru fagurhvítar og sjást því mjög vel. Skeljarnar eru í mesta lagi 4 mm í þvermál. Snúðormarnir geta dregið sig alveg inn í skelina og þannig þolað þurrk á háfjöru. Á flóði stinga þeir höfðinu út en það er alþakið greinóttum fálmurum.
Búsvæði
Kalkskeljar snúðorma má sjá á margs konar þangi í þangfjörum og gefa þanginu ákveðinn svip. Einnig finnast þeir á stórum kuðungum og skeljum og öðru föstu undirlagi.
Fæða
Snúðormurinn síar örsmáar fæðuagnir úr sjónum með fálmurunum.