Um vefinn
Aðrir greiningalyklar

Krabbadýr > Hrúðurkarl


Ljósmynd

Teikning
Lýsing
Hrúðurkarlar eru afar sérstæð krabbadýr sem lifa í og við sjó. Þeir eru smávaxnir og búa inni í hvítri skel sem umlykur líkamann. Skelin er samsett úr sex, hörðum kalkplötum. Það eina sem menn sjá eru fjaðurlaga þreifarar sem hrúðurkarlarnir stinga út um op efst á skelinni. Þreifararnir mynda straum og fæðan, sem eru litlar lífverur eða lífrænar leifar, sogast inn um opið og fer inn um munnopið. Hrúðurkarlarnir geta lokað skelinni mjög vel þegar þeir eru ekki við fæðuleit eða þegar þeir eru ofan vatnsborðs. Þeir geta því þolað þurrk vel í nokkurn tíma. Stærstu hrúðurkarlarnir í fjörunni geta orðið 1,5 cm í þvermál.

Búsvæði
Hrúðurkarlar sitja fastir á sama staðnum eftir að lirfan yfirgefur sviflífið og breytist í fullorðið dýr. Þeir setjast á alls konar staði, allt frá strandgrjóti til skipsstafna, bryggjudrumba til stórhvela. Í fjörum finnast þeir mest á grjóti; fjöruhrúðurkarlinn er mest ofarlega í fjörunni en vörtukarl er neðarlega í grýttum fjörum. Smáir hrúðurkarlar sitja gjarnan á stórum kuðungum og kröbbum.

Fæða
Hrúðurkarlar sía örsmáar fæðuagnir úr svifinu.

Annað
Sumir hrúðurkarlar eru tvíkynja. Þar sem þeir eru botnfastir og fara aldrei út úr skelinni er æxlun erfið og hefur það leitt til þess að getnaðarlimir hrúðurkarla eru ótrúlega langir eða allt að 15 cm að lengd.

Myndband á Fjöruvefnum