Lýsing
Beitukóngur er með stærri sniglum sem finnast við Ísland. Kuðungar í fjöru geta verið allt að 6 cm háir en stærri dýr eru á meira dýpi. Snúningarnir eru 6-7. Áferð kuðungsins er fremur gróf og oftast er hann hvítur eða gulleitur að lit. Ekki er óalgengt að fótur snigilsins komi út út skelinni og þá sjást höfuðið og fálmararnir ágætlega.
Búsvæði
Beitukóngur er með algengari sjávarsniglum við Ísland og fer niður á 200 m dýpi. Hann finnst oft í grýttum fjörum, einkum í pollum og undir stórum hnullungum.
Fæða
Beitukóngar eru skæð rándýr. Þeir lifa á burstaormum, smáum krabbadýrum, kræklingi og fleiri fjörudýrum. Þeir geta borað sig inn í skeljar krabba- og lindýra.
Annað
Algengt er að finna egg beitukóngs í fjöru eða flæðarmáli en beitukóngurinn verpir hundruðum eggja í nokkuð stóra eggjasekki sem berast með brimi og straumum.
Myndband á Fjöruvefnum