Nákuðungur


Ljósmynd

Teikning
Lýsing
Nákuðungar eru meðalstórir sniglar með fremur háan en jafnframt þykkan kuðung með fimm snúningum. Þeir eru sjaldan mikið hærri en 3 cm. Nákuðungar geta verið breytilegir að lit, oft hvítir en gulir og brúnir kuðungar eru ekki óalgengir. Þá eru röndótt afbrigði nokkuð algeng.

Búsvæði
Nákuðungar eru algengir í fjörum þar sem þang vex. Nákuðungar í grýttum fjörum þar sem brim er mikið hafa gjarnan þynnri skel en nákuðungar í skjólgóðum fjörum. Þetta er talið vera vegna meiri hættu frá rándýrum í skjólgóðum fjörum.

Fæða
Nákuðungar eru rándýr og éta einkum kræklinga og hrúðurkarla. Þeir nota svokallaða skráptungu til að brjóta upp skel bráðarinnar og næla sér í mjúka vefina fyrir innan.