Marfló


Ljósmynd

Teikning
Lýsing
Marflær eru smávaxin krabbadýr og eru mjög algengar í flestum íslenskum fjörum. Til eru fjölmargar tegundir. Sérkenni marflóa er að þær eru þunnvaxnar. Þegar þær finnast í fjörum skríða þær á hliðinni. Þær eru þó 'uppréttar' á sundi og minna þá á litlar rækjur. Marflær hafa bol sem skiptist í marga liði. Fæturnir, sem eru fjölmargir, eru stærri á frambol en á afturbol. Marflær eru flestar með áberandi fálmara á höfðinu og greinileg augu sem eru ýmist svört eða eldrauð. Sjálfar eru marflærnar fjölbreytilegar að lit, flestar gráleitar en einnig finnast græn-, gul- og rauðleitar tegundir. Stærstu marflær í fjörunni geta orðið 2,5-3 cm á lengd.

Búsvæði
Marflær finnast víða í fjörum en einkum þó þar sem er einhver sandur. Ef steini er snúið í sandfjöru sjást oft margar marflær forða sér á leifturhraða. Sumar marflóategundir finnast innan um þang og einnig eru til tegundir sem sníkja á öðrum dýrum.

Fæða
Munur er á fæðuvali eftir tegundum. Flestar marflær eru rándýr og/eða hræætur en jurtaætur þekkjast einnig meðal .þeirra.