Kuðungakrabbi


Ljósmynd

Teikning
Lýsing
Kuðungakrabbar eru sérkennilegir krabbar sem lifa nær alla sína ævi í kuðungum dauðra snigla sem þeir leita uppi og taka yfir. Líkamslögun þeirra er aðlögun að þessum sérstaka lífsmáta því bolurinn er langur, mjór og mjúkur. Þannig getur krabbinn komið sér fyrir inni í skelinni. Þegar krabbinn stækkar þarf hann að finna sér stærri kuðung. Höfuð, gripklær og gangfætur kuðungakrabbans standa yfirleitt út úr kuðungnum en hann getur þó dregið sig allan inn í kuðunginn. Gripklærnar eru stórar og sterklegar og höfuðið er nokkuð frammjótt. Skeljar kuðungakrabbans geta verið mismunandi að stærð og gerð og tilheyrt ýmsum tegundum en sjálfur er krabbinn oftast rauðleitur. Sjaldgæft er að sjá krabba sem er í stærri kuðungi en 5 cm háum í fjörunni.

Búsvæði
Kuðungakrabbar eru algengir í íslenskum fjörum og finnast einkum í pollum í grýttum þangfjörum. Þeir finnast einnig á meira dýpi þar sem þeir geta orðið allstórir og hafa þá oft hrúðurkarla og jafnvel sæfífla sitjandi á kuðungnum.

Fæða
Kuðungakrabbar éta einkum skeldýr og önnur lítt hreyfanleg fjörudýr. Þeir eru ekki mjög snarir í snúningum og reiða því sig frekar á launsátur.

Myndband á Fjöruvefnum