Krossfiskur


Ljósmynd

Teikning
Lýsing
Krossfiskar tilheyra skrápdýrum. Þau eru ekki með hægri og vinstri hlið eins og flest dýr heldur eru þau geislótt. Krossfiskar hafa stóra arma. Algengast er að armarnir séu fimm en sumar tegundir hafa fleiri. Í íslenskum fjörum eru stórkrossar algengastir. Stórkrossi hefur fimm arma og er eins og nafnið bendir til nokkuð stórvaxinn. Þeir allra stærstu geta verið 40 cm í þvermál með örmum en í fjörum eru þeir stærstu 15 cm í þvermál. Stórkrossi er appelsínugulur að ofan en ljósari að neðan. Húð stórkrossa er fremur hrufótt. Sogfætur eru mjög áberandi á neðri hliðinni. Þá notar krossfiskurinn til að hreyfa sig milli staða en einnig við að ná sér í bráð.

Búsvæði
Stórkrossi finnst á sjávarbotni á grunnsævi og víða neðarlega í fjörum, einkum í pollum og undir stórum steinum.

Fæða
Stórkrossinn er rándýr sem étur margvísleg fjörudýr, einkum þó skeljar og kuðunga.

Annað
Stórkrossar verða allt að átta ára gamlir. Ef þeir missa arm þá vex annar gjarnan í staðinn.