Möttuldýr


Ljósmynd

Teikning
Lýsing
Möttuldýr eru afar sérkennileg sjávardýr. Þau eru lítt áberandi, sjaldan mikið stærri en 2-4 cm á lengd. Þau eru botnföst, eins og poki í laginu og líkaminn skreppur mikið saman ef hann er ekki í vatni. Sumar tegundir eru þaktar þráðum og virðast því loðnar viðkomu. Möttuldýr sprauta út vatni ef þau eru kreist og þannig er gott að finna þau í fjörum. Einstaka tegundir lifa í litlum sambýlum. Flest eru brúnleit en til eru áberandi rauð möttuldýr.

Búsvæði
Í fjörum finnast möttuldýr einkum á botni polla eða í sjávarmálinu neðst í fjörum. Ef þau lenda ofan vatnsborðsins skreppa þau saman og eru lítt áberandi.

Fæða
Möttuldýr soga inn í sig vatnsstraum og sía fæðuagnir úr vatninu.

Annað
Ótrúlegt en satt þá eru möttuldýr skyld hryggdýrum og þ.m.t. mönnum. Skyldleiki þessi sést á lirfustigi en lirfur möttuldýra lifa í svifinu og hafa sundsporð. Lirfurnar hafa seil í sundsporðinum en seil er nokkurs konar forstig hryggjar. Lirfurnar gangast svo undir myndbreytingu og setjast á botninn sem fullorðin möttuldýr.