Ljósmynd
Teikning
Lýsing
Sagvespur tilheyra æðvængjum líkt og geitungar og hunangsflugur, en þekkjast frá þeim á því að afturbolur og frambolur eru ekki greinilega aðskildir með mjóu mitti. Í staðinn virkar bolurinn ílangur og frekar þykkur. Varppípan er tennt og minnir á sög, útskýrir það nafngift sagvespunnar. Ólíkt geitungum og hunangsflugum nota sagvespur ekki varppípuna sem stungubrodd. Sagvespur eru gjarnan gul-svartröndóttar og geta því minnt á geitung við fyrstu sýn en líkamslögunin greinir örugglega á milli.
Búsvæði
Sagvespur eru fáséðar hérlendis enda eru þær einkum algengar í skóglendi þar sem þær verpa eggjum sínum í trjábörk.
Fæða
Lirfur sagvespa minna á fiðrildalirfur í útliti og líkt og þær éta þær laufblöð, einkum víðitrjáa. Fullorðnar sagvespur neyta helst blómasykurs.