Um vefinn
Aðrir greiningalyklar

> Bitmý


Ljósmynd

Teikning

Lýsing

Bitmý eru fremur smáar, svartar flugur sem minna í fyrstu sýn á smávaxnar húsflugur en eru fíngerðari, auk þess sem fæturnir eru áberandi stuttir. Lirfur bitmýsins eru ílangar en nokkuð sverar og þá sérstaklega afturendinn. Höfuðið er stórt með sterklegum kjálkum og áberandi háf sem þær nota til að sía fæðuagnir úr vatninu.

Búsvæði

Bitmý finnst helst nálægt straumvötnum, einkum lindám og þá aðallega við ár sem renna úr stöðuvötnum. Flugurnar verpa eggjum í rennandi vatn, læki og ár. Lirfurnar festa sig við steina á botninum með því að spinna lítinn silkiþráð sem festu. Lirfurnar lifa allan veturinn í ám og lækjum en púpa sig og klekjast á vorin eða fyrripart sumars.

Fæða

Bitmý er alræmt fyrir að bíta og sjúga blóð úr dýrum, þ.á m. mönnum, en það eru fyrst og fremst kvenflugurnar sem gera það. Karlflugurnar lifa einkum á blómasafa. Lirfurnar lifa á fæðuögnum sem berast niður straumvötn og nota þá háfinn til að grípa þær. Sjálfar eru lirfurnar mikilvæg fæða fyrir fugla og fiska.