Ljósmynd
Teikning
Lýsing
Mýflugur er sá hópur tvívængja sem telur flestar tegundirnar.Þar af er rykmý hvað mest áberandi og best þekkt hérlendis.
Rykmý tilheyrir tvívængjum, líkt og húsflugur, og flugurnar hafa því aðeins eitt par eiginlegra vængja þar sem afturvængirnir eru umbreyttir í svokallaða kólfa.
Hérlendis finnast um 80 tegundir rykmýs, flestar þeirra fremur líkar í útliti en misstórar. Flugurnar eru mjóslegnar, með lítil höfuð, langa og mjóa fætur og fremur fíngerða vængi. Karlflugurnar hafa mjög áberandi fjaðurkennda eða loðna fálmara.
Lirfur rykmýs eru langar og mjóar með áberandi höfuð sem er gjarnan dekkra á lit. Lirfunar eru gjarnan fölleitar eða brúnar en ekki er óalgengt að sjá eldrauðar rykmýslirfur.
Búsvæði
Rykmý finnst víða en þó fyrst og fremst í námunda við vatn þar sem flugurnar verpa eggjum í stillt vatn, einkum tjarnir og stöðuvötn. Rykmýslirfur finnast í flestum næringarríkum vötnum. Þar geta milljónir mýlirfa þrifist og þegar þær yfirgefa vatnið sem fullvaxnar flugur má gjarnan sjá stóra mýstróka með hundruðum þúsunda einstaklinga. Besti staðurinn til að sjá slíka stróka er við Mývatn þar sem þéttleiki rykmýs er mestur á Íslandi.
Fæða
Misjafnt er eftir tegundum hvað lirfurnar éta. Sumar eru rándýr og éta ýmis smádýr, aðrar éta þörunga og enn aðrar grot, en svo nefnast lífrænar leifar sem setjast fyrir á botni vatna. Fullorðnu flugurnar éta lítið, helst að þær fái sér blómasykur.
Sjálft er rykmýið afar mikilvæg fæða fyrir önnur dýr, einkum og sér í lagi lirfurnar og púpurnar sem eru undirstöðu fæða margra ferskvatnsfiska- og vatnafuglastofna hérlendis.