Um vefinn
Aðrir greiningalyklar

> Mykjufluga


Ljósmynd

Teikning

Lýsing

Mykjuflugan er gulgrænleit á lit og eru stærstu karlflugurnar gulari og loðnari en þær minni sem eru líkari kvenflugum á lit, þ.e. grágrænar. Karlflugurnar eru tugum saman við kúadellur og þar fer fram mikil samkeppni á milli þeirra um kvenflugur sem dragast að mykjulyktinni. Mökun fer fram á og í nágrenni kúadellunnar og síðan verpir kvenflugan eggjum í yfirborð dellunnar. Á meðan hún verpir heldur karlinn um hana og verst árásum annarra karla.

Búsvæði

Flugurnar geta orpið í saur allra spendýra en kúamykja er sérlega heppileg fyrir þær. Þær finnast því mest í kringum húsdýrin. Fyrstu flugurnar birtast snemma í maí og hverfa um mitt haust. Þær finnast í alls konar gróðri nálægt stöðum þar sem húsdýr eru í grenndinni.

Fæða

Lirfurnar éta mykjuna og stækka hratt. Þær eru 2-3 vikur á lirfustigi og púpa sig þá í eða undir mykjuskáninni. Flugan klekst svo út úr púpunni 7-10 dögum síðar, nema á haustin þegar púpan leggst í dvala. Flugan lifir á smærri tvívængjum og blómasafa en mykjan er ekki þeirra fæða þó þær fái sér stundum að drekka á dellunni.

Annað

Stundum berjast karldýrin af hörku um kvendýr sem annar þeirra hefur makast við. Ef sá sem réðst á parið vinnur byrjar hann á að makast við kvenfluguna. Rannsóknir hafa sýnt að sá sem makast síðastur feðrar að jafnaði 80% afkvæmanna. Stærstu karldýrunum gengur best í þessari baráttu. Fæðuframboðið á lirfustigi ræður hversu stórar flugurnar verða.