Um vefinn
Aðrir greiningalyklar

> Geitungur


Ljósmynd

Teikning

Lýsing

Geitungar tilheyra þeim hópi skordýra er kallast æðvængjur. Þeir hafa fjóra vængi og áberandi skil milli frambols og afturbols. Höfuðið er fremur stórt og áberandi, augun stór og fálmararnir langir og er liðskipting þeirra mjög greinileg. Geitungar eru gulleitir með áberandi svartar rendur.

Búsvæði

Á Íslandi eru fjórar geitungategundir; húsageitungur, holugeitungur, trjágeitungur og roðageitungur. Allar geitungategundirnar mynda bú en eins og nöfn þeirra benda til er staðsetning búanna oft mismunandi milli tegunda. Geitungar eru tiltölulega nýlegir landnemar hérlendis og eru algengastir í þéttbýli, einkum þar sem er mjög gróðursælt. Þeir hafa þó breiðst út víða um land og eru t.d. trjágeitungar algengir í skógrækt og í sumarbústaðalöndum.

Fæða

Geitungar lifa á blómasafa, trjákvoðu og öðru kolefnisríku fæði. Þeir veiða þó einnig smáar flugur og önnur skordýr.

Annað

Geitungadrottningin liggur í dvala yfir veturinn og vaknar á vorin. Þá hefst hún handa við að mynda búið. Búið byggir hún úr pappír sem hún myndar úr trjáviði blönduðum munnvatni. Drottningin verpir eggjum í búið þegar það er tilbúið. Úr eggjunum klekjast þernur sem allar eru kvenkyns. Þernurnar sinna búinu yfir sumarið á meðan drottningin verpir fleiri eggjum. Þernurnar og drottningin deyja í lok sumars en úr síðustu eggjunum klekjast nýjar drottningar auk karlgeitunga. Nýju drottningarnar makast við karlgeitungana snemma hausts og leggjast síðan í dvala. Ólíkt hunangsflugum geta geitungar verið töluvert árásarhneigðir ef þeir eru áreittir. Því þarf að hafa varann á þegar geitungabú er í nánd.