Járnsmiður


Ljósmynd

Teikning

Lýsing

Járnsmiður er ein algengasta og best þekkta bjöllutegund landsins. Járnsmiðir eru um sentimetri á lengd og biksvartir á lit, nema fæturnir sem hafa áberandi rauðar rendur. Líkt og aðrar smiðstegundir eru járnsmiðir frekar ílangir, með breiðari afturbol en frambol, fremur smátt höfuð en langa fálmara. Þeir hafa mjög langa fætur enda afar fljótir í förum.

Búsvæði

Járnsmiðir finnast víða á þurrlendi enda eru þeir fremur virkir og sífellt á ferð í fæðuleit. Þeir eru algengir í görðum og mólendi, og finnast oft nálægt mannabústöðum.

Fæða

Járnsmiðir eru virk rándýr sem elta uppi bráð sína sem er einkum smærri skordýr og ormar.

Annað

Margar tegundir eru í járnsmiðsættinni og eru þær líkar hver annarri en misstórar. Sú stærsta, varmasmiður, er 2,5 cm á lengd. Sumum finnst skrýtið að þeir skuli geta flogið en staðreyndin er sú að svarta skelin (skjaldvængir) sem er yfir fram- og afturbol getur opnast og þar undir eru tveir þunnir vængir sem dýrið flýgur með.