Ljósmynd
Teikning
Lýsing
Ranabjöllur eru frekar smávaxnar bjöllur, sjaldan mikið lengri en hálfur sentimetri. Þær eru auðþekkjanlegar á sérkennilegu höfuðlagi. Höfuðið er fremur ílangt og mjókkar fram á við líkt og rani. Bolurinn er kubbslegur og sívalur en fæturnir geta verið nokkuð langir. Ranabjöllur hérlendis eru oftast dökkleitar á lit.
Búsvæði
Ranabjöllur finnast víða. Hérlendis sjást þær einkum í og við mannabústaði, á húsveggjum og í görðum. Þá leita ranabjöllur í matargeymslur og eiga til að finnast í hveiti- og kornpokum.
Fæða
Ranabjöllur eru jurtaætur og sækja mjög í korn og önnur fræ. Þær geta valdið töluverðum skaða í kornrækt ef fjöldi þeirra er mikill. Sumar þeirra eru skaðvaldar í trjárækt því þær éta rætur.