Könguló


Ljósmynd

Teikning

Lýsing

Köngulær eru auðþekktar á því að þær hafa átta fætur en einnig á því að líkami þeirra er tvískiptur. Höfuðið og frambolurinn eru samvaxin en afturbolurinn er greinilega aðskilinn og tengdur með tiltölulega grönnu mitti. Afturbolurinn er einnig oft töluvert mýkri en frambolurinn. Köngulær hafa allt að átta augu fremst á höfuðframbolnum. Þar eru einnig munnlimirnir auk klóskera sem í eru eiturkirtlar. Á afturbolnum eru litlir nabbar er kallast spunavörtur en úr þeim kemur silkið sem köngulær nota til að spinna vefi og annarra hluta.

Búsvæði

Allt að 90 tegundir köngulóa finnast á Íslandi og eru búsvæði þeirra margvísleg. Sjö tegundir finnast einungis innanhúss en langflestar tegundir utanhúss. Köngulær finnast alls staðar þar sem einhver gróður er. Sumar spinna vefi sína hátt frá jörðu, í mannvirkjum, í runnagróðri og trjám, en aðrar grafa sér holur efst í jarðvegi eða spinna vefi í gróðursvörðinn.

Fæða

Köngulær eru rándýr og flestar nota eitur til að lama bráð sína. Þær sjúga svo innvolsið upp og skilja skurnina eftir. Þótt allar köngulær geti framleitt silki eru ekki allar sem spinna stóra vefi til að veiða bráð sína. Þær köngulær sem spinna sér ekki vefi sitja ýmist fyrir bráð sinni eða elta hana uppi.

Annað

Gaman er að fylgjast með því þegar köngulær sýna snilli sína í að spinna vef. Þetta athæfi hefur heillað menn frá upphafi. Það sem margir vita ekki er að köngulóin spinnur vefinn sinn upp á nýtt á hverjum degi.