Ljósmynd
Teikning
Lýsing
Hornsíli eru algengustu fiskar í ferskvatni hérlendis. Þau eru auðþekkjanleg á smæð sinni. Helst er hætta á að rugla þeim við silungs- og laxaseiði en við nánari skoðun eru þau gjörólík þeim.
Hornsíli eru misstór eftir aldri, kyni og einnig er stærðarmunur milli og jafnvel innan vatna. Þau eru þó sjaldan stærri en 10 cm á lengd og oftar um 5 cm. Þau eru hliðflöt, með nokkuð straumlínulagaðan líkama. Höfuðið er frammjótt, augun stór og í hængnum áberandi blá (sérstaklega á mökunartíma). Roðið er glansandi, silfurgrátt að jafnaði þó litbrigði séu margvísleg, gul og brún hornsíli eru ekki óalgeng hérlendis. Þá verður kviður hængsins eldrauður á æxlunartíma. Á hliðunum eru gjarnar stórar roðplötur og á baki eru þrír hvassir broddar eða horn. Slík horn eru einnig á kvið. Hornsíli eru sérstaklega fjölbreytileg í útliti, bæði plöturnar og stærðin. Í Vífilsstaðavatni er afbrigði sem er ekki með kviðgadd.
Búsvæði
Hornsíli finnast bæði í sjó og í ferskvatni, í smáum tjörnum, lygnum ám og stærri stöðuvötnum. Þau finnast gjarnan þar sem er botngróður en þau nýta vatnaplöntur og þörunga við að búa til hreiður fyrir egg sín.
Fæða
Hornsíli éta fyrst og fremst dýrasvif svo sem árfætlur og vatnaflær.
Annað
Hornsílahængurinn býr til hreiður úr slýi og laðar til sín hrygnur með heillandi dansi. Hann sýnir þeim hreiðrið og ef þeim líst vel á fara þær inn og gjóta. Hann skýst á eftir þeim og frjóvgar hrognin. Nokkrar hrygnur geta heimsótt hvern hæng. Hann gætir eggjanna og seiðanna fyrst eftir klak.