Um vefinn
Aðrir greiningalyklar

Í vatninu á sundi - Fiskar > Silungsseiði


Teikning

Lýsing:

Laxfiskar hrygna yfirleitt á smágrýttum botni og hrygnurnar grafa eggin niður í botninn. Lax og urriði hrygna nær eingöngu í straumvatni. Bleikjan hrygnir ýmist í straumvatni eða í stöðuvötnum. Úr eggjunum klekjast svokölluð kviðpokaseiði, en svo nefnast þau af því að á kviðnum er poki sem hýsir afganginn af forðanæringu eggsins. Þegar seiðin klekjast eru þau oftast u.þ.b. 2-3 cm að lengd. Í fyrstu halda þau kyrru fyrir og nærast á forðanum í kviðpokanum. Þegar gengur á forðann leita þau upp á yfirborðið og fara fljótlega að taka fæðu af botninum. Smám saman eyðist kviðpokinn og seiðin fá á sig vanalegt fisklag. Seiðin eru í felulitum og eru fljót að skjótast inn á milli steina ef hætta er á ferðinni.

Búsvæði

Seiðin lifa helst á smágrýttum botni en eftir því sem þau stækka geta þau farið að nýta sér önnur búsvæði. Algengt er að sjá laxfiskaseiði í íslenskum ám og vötnum. Í ánum eru þetta einkum urriða- og laxaseiði en í vötnunum eru bleikjuseiði oftast ríkjandi.

Fæða

Fæða laxfiskaseiða er í fyrstu takmörkuð við smávaxin botndýr, einkum smá krabbadýr og mýlirfur. Þegar seiðin stækka verður fæðan fjölbreyttari og þau ráða við stærri dýr.