Um vefinn
Aðrir greiningalyklar

Í vatninu á botninum - Liðormar > Blóðsuga


Ljósmynd

Teikning

Lýsing

Blóðsugur eru auðþekkjanlegar. Þær eru langir ormar, sem geta þó dregið líkamann sundur og saman þannig að stundum virðast þær vera nær kúlulaga. Líkaminn skiptist í marga liði. Fremstu liðirnir mynda stóra sogskál sem blóðsugan notar til að festa sig við yfirborð, t.d. á hýsli en einnig til að færa sig milli staða. Blóðsugur í íslenskum vötnum eru ekki mjög stórar. Þær stærstu eru andablóðsugur sem geta verið nokkrir sentimetrar á lengd þegar þær teygja úr sér. Þær eru oftast grænar eða brúnar á lit.

Búsvæði

Blóðsugur finnast í tjörnum og vötnum, einkum þar sem mikið er um vatnafugla en þeir eru meginhýslar fyrir íslenskar blóðsugur. Ein tegund lifir sníkjulífi á sniglum.

Fæða

Blóðsugur festa sig á fætur eða gogg anda, gæsa og fleiri fugla og sjúga blóð sér til næringar. Þær seyta efnum sem koma í veg fyrir að blóð hýsilsins storkni.

Annað

Líkt og ánamaðkar sem eru nokkuð skyldir blóðsugum eru þær tvíkynja og hafa bæði karlkyns og kvenkyns æxlunarfæri.