Vorfluga


Ljósmynd

Teikning

Lýsing

Vorflugur minna um margt á fiðrildi, þar sem þær hafa stóra, loðna vængi enda eru fiðrildi nánustu ættingjar þeirra. Vorflugur eru þó yfirleitt fremur dauflitar, gul- eða grábrúnar. Afturvængirnir eru áberandi breiðari en framvængirnir og í hvíldarstöðu leggjast vængirnir eins og þak yfir bolinn. Höfuðið er áberandi, augu og munnur stór og fálmararnir mjög langir og liðskiptir. Lirfur vorflugna lifa í fersku vatni. Þær hafa nokkuð stórt höfuð en fremur væskilslegan búk enda búa þær sér til hýði sem þær dvelja í. Hýðið getur verið úr plöntuleifum, sandi eða jafnvel litlum steinvölum. Hýðið virkar einnig vel sem felubúningur.

Búsvæði

Vorflugur finnast einkum nálægt lygnu straumvatni eða tjörnum þar sem þær verpa eggjum í vatnið og dvelja lirfurnar öllum stundum í vatninu, yfirleitt á botninum. Fullorðnar vorflugur lifa yfirleitt aðeins í nokkrar vikur og finnast því sjaldan langt frá votlendi en geta flækst víða.

Fæða

Vorflugulirfur éta að mestu smáar fæðuagnir, bæði þörunga og rotnandi efni. Sumar lirfur lifa á öðrum smádýrum. Fullorðnar vorflugur lifa einkum á blómasafa.