Árfætla


Ljósmynd

Teikning
Árfætlur eru krabbadýr sem lifa sviflífi og finnast því einkum í vötnum. Árfætlur hérlendis eru fyrst og fremst í sjó (svo sem rauðáta) en einnig eru þær algengar í fersku vatni.

Lýsing

Árfætlur eru afar smávaxnar (1-2 mm á lengd). Líkaminn er oftast dropalaga, frambolurinn töluvert stærri en afturmjókkandi afturbolurinn. Fremst á frambol eru stórir, liðskiptir og jafnvel hálfgreinóttir fálmarar. Kvendýr bera gjarnan einn eða tvo eggjasekki á afturbol sem eru þá mjög áberandi. Árfætlur hafa aðeins eitt auga sem er á miðjum frambolnum og gjarnan töluvert stórt. Árfætlur í fersku vatni eru oft rauðleitar að lit, en gulleitar og glærar tegundir eru einnig algengar.

Búsvæði

Árfætlur finnast víða í vötnum, allt frá örsmáum pollum til stórra stöðuvatna og mynda stóran hluta af dýrasvifinu. Er þær því einkar áberandi í vatnsbolnum en þær finnast þó einnig nær botni.

Fæða

Flestar árfætlur éta svifþörunga en stærri tegundirnar éta smærri ættingja sína í dýrasvifinu.

Annað

Þar sem árfætlur finnast í milljónatali í næringarríkum vötnum getur ástand árfætlustofna gefið góða innsýn í heilbrigði ferskvatnsvistkerfa þar sem sveiflur í plöntusvifi hafa bein áhrif á árfætlustofnana.