Inngangur Til notandans Leiðbeiningar Ítarefni Tónfræðiágrip Efnisyfirlit Um vefinnTónlist í tímans rás

Vefurinn Tónlist í tímans rás er námsefni ætlað eldri nemendum grunnskólans. Vefurinn er að hluta til gagnvirkur og býður upp á sjálfstætt nám og sjálfstæð vinnubrögð á sviði tónmenntar undir góðri leiðsögn kennara. Efnið er hannað með það í huga að það henti vel til fjarkennslu.

Almennur fróðleikur er settur saman úr brotum almennrar mannkynssögu, listasögu, búningasögu og tónlistarsögu. Ekki er þó hægt að gera þessum þáttum full skil í svo takmörkuðum texta en megintilgangurinn er að vekja áhuga.

Tónsmíðaleiðbeiningarnar byggja á vandlega völdum aðferðum frá ýmsum tímum. Aðgerðum nemenda er skipt niður á þrep og er þeim ætlað að feta sig gegnum sköpunina stig af stigi með aðstoð og ábendingum í efninu og frá kennara.

Mikilvægt er að átta sig á því að ekki er ætlunin í tónsmíðunum að endurskapa stílbrigði fyrri alda heldur aðeins kynnast aðferðum frá þeim tíma og verkum sem á þeim byggjast. Síðan eru aðferðirnar notaðar á annan efnivið og með breyttum hætti til að móta verk nemenda.

Auðvitað gefa aðferðirnar stundum mjög sterkt stílbragð. En verk nemenda verða ekki metin með tilliti til þess hve þau líkjast fyrirrennurum sínum heldur því hvað nemandinn hefur lagt sjálfur af mörkum við vinnu sína.Til notandans

Tveir meginþættir fléttast hér saman. Sögulegur fróðleikur almennur og á sviði tónlistar og svo tónsmíðaleiðbeiningar með verkefnum á hverju tímabili tónlistarsögunnar.Til notandans - Hverjum ætlað

Vefurinn Tónlist í tímans rás er námsefni ætlað eldri nemendum grunnskólans og hugsanlega yngstu hópum framhaldsskóla. Hins vegar fer það eftir kennslunni í yngri bekkjunum hvenær mögulegt er fyrir einn og einn nemanda að byrja að prófa sig áfram í léttustu verkefnunum. Mikilvægt er að kennari gefi svigrúm fyrir einstaklinga sem vilja spreyta sig.Til notandans - Tæknilegar kröfur

Notandi vefsins þarf að sækja á Netið spilara sem tengist nótnaforritinu Sibelius. Myndin hér til hægri er tengill til að hlaða niður forritinu. Að því loknu er hægt að skoða öll nótnadæmi í tónsmíðahlutanum með bendli sem færist um leið og nótan heyrist. Þetta auðveldar það verkefni að fylgjast með framvindu dæmanna.

Til þess að vinna verkefnin þarf notandinn að hafa nótnaforrit og fylgja slík forrit með sumum tölvum. Hugsanlegt er að einföldustu gerðir nægi ekki þeim sem vilja gera flókna hluti. Það nótnaforrit sem notað er hér heitir Sibelius og eru til mismunandi útgáfur af því. Ef það er notað er nokkuð auðvelt að flytja gögn á milli frá námsefninu inn í skjal nemandans. Það á hins vegar að vera hægt líka í öðrum forritum.Til notandans - Ýmsar ábendingar

Undirbúningurinn mikilvægur

Það sem skiptir máli þegar kemur að kennslu barna og unglinga í tónsmíðum er að hafa undirbúið vinnu þeirra vel. Barn er vel undirbúið þegar það hefur komið að öllum meginþáttum viðfangsefnisins á annan hátt í öðru verkefni. Tónmenntin fjallar auðvitað í raun alltaf um það sama. Við erum að kenna tónlist, um tónlist, með tónlist. Við erum alltaf að vinna með frumþætti tónlistarinnar og næmi barnanna fyrir þeim. Hraði, hrynur, blær, styrkur og form eru viðfangsefni sem aldrei verða tæmd en þarf alltaf að koma að á krefjandi hátt á hverju aldursskeiði. Tónsmíðarnar eru bara ein leið af mörgum mögulegum og jafn gildum. Tónsmíðar koma ekki í stað tónlistariðkunar með hljóðfærum, þær koma ekki í stað hlustunar né hreyfingar eða annars sem menn hafa fram að þessu gert og gert vel. En þær eru mjög gild viðbót í það verkfærasafn kennara sem allar þessar nálganir eru.

Eitt verðum við auðvitað að viðurkenna, að við erum ekki öll eins, og okkur hentar ekki öllum að kenna á sama hátt. Þeim mun fleiri aðferðir sem eru í boði við tónmenntarkennsluna því meir aukast líkurnar á að allir geti fundið þá blöndu aðferða sem þeim hentar í kennslu og nýtir best þekkingu þeirra og listinnsæi. Tónsmíðar eru krefjandi kennsla, því skal ekki neita. En þegar á allt er litið – hvaða kennsla er það ekki? Tónsmíðar eru líka krefjandi fyrir nemendurna og eiga að vera það. Kennarinn verður að vera vakandi fyrir því ferli sem nemandinn er að ganga í gegnum og vera hæfur til að grípa inn í þegar mikið liggur við. Þarf að geta komið með ábendingar, geta rökstutt uppbyggjandi álit á grunnþáttum í verkum nemenda og bent á möguleika sem byggjast á tónlistarþekkingu hans og reynslu.

Munum bara að reisa okkur ekki hurðarás um öxl, ætla okkur ekki of mikið í upphafi. Munum að vandamál eru til þess að leysa þau og heimurinn ferst ekki þó það taki dálítinn tíma. Reynum þegar tækifæri gefst að tengja verkin því sem er að gerast í skólanum eða samfélaginu og sjáum til þess að nemendur fái að deila verkum sínum með öðrum. Verum heiðarleg og óhrædd við að viðurkenna þegar okkur skortir þekkingu eða tækni en jafnframt djörf að sækja okkur hugmyndir og aðstoð. Slíkt getur leynst á ótrúlegustu stöðum.

Tölva – notadrjúgt tæki við tónsmíðar

Við þekkjum öll málshætti sem varpa ljósi á samband mannsins við þau áhöld og tæki sem hann hefur búið til í viðleitni sinni til að auðvelda sér lífsbaráttuna. Veldur hver á heldur og árinni kennir illur ræðari – eru dæmi um þá meitluðu visku sem búið getur í nokkrum orðum. Tölvur eru notaðar víða í mannlegu samfélagi. Á síðustu árum hefur notkun þeirra við skapandi vinnu á öllum sviðum stóraukist. Er þar tónlist ekki undanskilin.

Tónskáld hafa mörg hver árum saman nýtt hugbúnað í tölvum við vinnu sína. Það verður verkefni komandi kynslóða tónlistarfræðinga að greina þá hugsanlegu breytingu sem orðið hefur á innviðum tónlistar við þessar breyttu aðstæður við sköpun hennar. Með samtengingu tölvu og hljóðgervla geta menn heyrt verk sín á hvaða stigi vinnunnar sem er og tekið ákvarðanir um framhaldið í ljósi þeirrar reynslu. Ljóst er þó að ef verkið eru samið fyrir hljóðfæri þá gefur tölvan aðeins óljósa mynd af því, ekkert kemur í stað lifandi flutnings. Þó er margt sem tölva með tónlistarhugbúnaði og tengingu við hljóðgervla getur auðveldað og á það ekki síður við um óreynda tónsmiði. Hér skulu talin upp nokkur atriði í þessu sambandi.

Tölvunotkun gerir mögulega notkun á táknkerfi tónlistar án þess að hafa hefðbundið vald á því. Svolítið líkt því að geta keyrt bíl án þess að kunna veruleg skil á vélinni. Táknkerfið þjónar í stað þess að ríkja. Tölvunotkunin auðveldar og eykur hraða hugmyndavinnu. Litlar breytingar án heildrænnar endurvinnu eru svo ævintýralega fljótlegar í tölvum. Tölvunotkunin gerir, eins og áður sagði, flutning mögulegan sem bæði hefur leiðsagnar- og endurmatsgildi. Tölvunotkun opnar leiðir að sköpun tónlistar fyrir marga sem að öðrum kosti hefðu setið hjá. Mörg fötlunin er jafnvel yfirstigin með þessu fjölhæfa hjálpartæki. Tölvunotkun býður upp á fjölmarga möguleika til samvinnu og samskipta – jafnvel yfir lönd og höf. Midi-skjöl eru létt skeyti. Hér er þó aðeins fátt eitt upp talið. En allt krefst þetta leikni, þekkingar og áhuga. Þessu málefni er ætlað að vera gagnlegur og upplýsandi grunnur í tónsmíðavinnu í eldri bekkjum grunnskóla. Tónsmíðaleiðbeiningarnar eru ætlað ar til stuðnings og heimilt að aðlaga þær aðstæðum hverju sinni.

Munum alltaf

 • að vera djörf
 • að vera jákvæð
 • að vera leitandi
 • að vera sjálfstæð
 • að vera sveigjanleg
 • að vera þrautseig


Til notandans - Tæknilegar kröfur

Notandi vefsins þarf að sækja á Netið spilara sem tengist nótnaforritinu Sibelius. Myndin hér til hægri er tengill til að hlaða niður forritinu. Að því loknu er hægt að skoða öll nótnadæmi í tónsmíðahlutanum með bendli sem færist um leið og nótan heyrist. Þetta auðveldar það verkefni að fylgjast með framvindu dæmanna.

Til þess að vinna verkefnin þarf notandinn að hafa nótnaforrit og fylgja slík forrit með sumum tölvum. Hugsanlegt er að einföldustu gerðir nægi ekki þeim sem vilja gera flókna hluti. Það nótnaforrit sem notað er hér heitir Sibelius og eru til mismunandi útgáfur af því. Ef það er notað er nokkuð auðvelt að flytja gögn á milli frá námsefninu inn í skjal nemandans. Það á hins vegar að vera hægt líka í öðrum forritum.Til notandans - Góð ráð

Ákveðna hluti er alltaf rétt að hafa í huga og hér eru nokkur góð ráð sem munu reynast þeim sem eftir fara mjög vel.

Geymdu alltaf hvert stig í tónsmíðaverkefnunum þínum með nýju nafni og safnaðu öllum stigunum saman í möppu. Þetta er rétt að gera af nokkrum ástæðum:

 • Þú getur orðið óánægð(ur) með þróun í verki og viljað byrja aftur þar sem þú varst síðast sátt(ur) við það sem þú heyrðir
 • Kennarinn þinn þarf að geta skoðað þróunina sem verður á verkefninu.
 • Þú getur oft notað eitthvað millistig í verki sem grunn að öðru verki. Þetta gildir t.d. um ákveðin þrep í organum verkefninu því það getur þú notað oft.
 • Mundu að gera þetta þó svo að þú ráðist í verkefni og þér gangi vel og haldir samfellt áfram nokkur skref. Geymdu verkefnið alltaf með nýju nafni þegar þú hefur lokið hverju skrefi áður en þú ferð áfram í það næsta.

Mundu að hlusta alltaf öðru hvoru á það sem þú ert að vinna í, þó ekki of snemma því oft þegar þú ert að byrja að búa til efniviðinn þá hljómar þetta ekki áhugavert en mun verða það ef þú heldur áfram.

 • Ekki byrja því of snemma að snyrta með eyrað sem leiðbeinanda. Það væri eins og að breyta eða henda deiginu að brauði áður en þú bakar það.

Verið óhrædd við að brjóta „reglurnar“, þær eru bara til stuðnings. Það er hins vegar æskilegt að vita sjálfur hvenær það er gert og hvers vegna. Ástæður fyrir slíku geta verið margar:

 • Þér finnst mynstrið betra öðruvísi.
 • Hljómurinn er betri með breytingu,
 • Þér finnst vanta andstæðu eða langar einfaldlega að heyra og sjá hverju einhver breyting breytir í rauninni.
 • Sumar breytingar sem sýnast miklar breyta litlu þegar hlustað er en aðrar minni gera mikinn mun. Þessu öllu er gott að kynnast.

Mundu að hvergi í verkefnunum er verið að reyna að endurskapa stíl fyrri tíma.

 • Markmiðið er að kynnast aðferðunum og nota í eigin tónföndri. Stíllinn á verkefnunum verður sennilega oftast allt annar en það sem hljómaði fyrir nokkur hundruð árum.

Lausnir á verkefnunum geta verið margar og ólíkar og þannig á það að vera. Settu þinn svip á efnið og reyndu að vera ekki þræll eyrans.

 • Eyru okkar allra gleðjast mest yfir því sem þau þekkja. Leyfðu eyranu að venjast því sem kemur út úr verkefnunum.
 • Hættu ef þér finnst þetta allt hljóma ógeðslega. Þegar þú byrjar aftur seinna þá er nokkuð víst að þú heyrir eitthvað sem þér finnst kannski forvitnilegt eða jafnvel gott.

Gangi þér vel og góða skemmtun!Til notandans - Algeng vandamál

Nauðsynlegt er að geta þessa hér að til þess að hægt sé að hlusta á tóndæmi má Windows Media Player glugginn ekki vera opinn. Ef slíkur gluggi er opinn fyrir þá getur ekki komið upp nýr gluggi til að leika næsta tóndæmi og þar með heyrist ekki neitt.

Öll sköpun er erfið. Í grundvallaratriðum þurfa börn og unglingar að fara yfir þrjá þröskulda í svona tónföndri:

 • Hvernig byrja ég?
 • Oj – hvað þetta er ljótt! (um miðbik verkefnisins)
 • Hvernig get ég látið verkið enda?

Þetta eru verðugar spurningar en vandinn liggur oft dýpra. Yfir huga sumra grúfir hugmynd um fullkomnun sem allt rífur niður og engu eirir. Í þessari vinnu kynnast menn sjálfum sér á nýjan hátt og sýna á sér nýjar hliðar. Það er kennarans að vera tilbúinn með gagnlegar hugmyndir, uppörvun og aga. Það krefst aga að setja eitthvað saman sem byggir á hugmyndavinnu, endalausu vali og mikilli pússun. Líkt og nemendur í smíði þurfa að læra hve mikilvægt er að pússa trémunina sína með sandpappír, þannig þarf tónsmiður að yfirfara val sitt oftar en tölu verður á komið og móta það í minnstu smáatriðum.

Ef illa gengur að fá tölvur og hljómtæki af öllum gerðum til að tala saman eða ef erfitt er að finna aðferðir til að gera eitthvað í forritinu eða hvað eina sem getur vafist fyrir manni á þessu sviði:

LEYFÐU NEMENDUNUM AÐ LEYSA MÁLIÐ!Til notandans - Hugrenningar

Allir geta samið tónlist – er það ekki?

Af hverju spyr enginn svona þegar um myndlist er að ræða? Allir geta teiknað mynd, er það ekki? Þessi spurning hljómar fáránlega. Við vitum að allir geta gert mynd. Auðvitað eru myndir mismunandi. Þær eru mismunandi eftir kyni, aldri, búsetu, áhugasviði og hæfileikum teiknarans – svo fátt eitt sé talið. Það virðist þó ekki halda fólki frá þessari iðju. Menn rissa og skissa hver í kapp við annan og engum dettur í hug að þeir ættu ekki að geta það.

Sumir vilja meira. Fólk fer á námskeið til að læra að fara með vatnsliti eða olíuliti. Þess eru dæmi að fólk sjáist hreinlega með trönur úti í náttúrunni. Og einstaka gerir þetta að meginviðfangsefni lífs síns, verður málari.

Þetta ætti að vera alveg eins í tónlistinni. Að allir fitluðu við að raða saman tónum og hljóðum. Sumir færu á námskeið. Fólk tæki upp á því að gefa vinum sínum tónagjafir og fáeinir gerðust skáld á þessu sviði, tónskáld.

Skólinn þarf að gefa nemendum sambærileg tækifæri í tónlistariðkun og gert er í myndlist. Megintilgangur listiðkunar er að auka möguleika einstaklinganna til að njóta. Að lifa er að njóta! Þekking og lifandi reynsla er undirstaða nautnar og gleði. Sannlega upplýstur maður er glaður maður.

Tónsmíðar eru ekki aðeins fyrir fáa útvalda

Listirnar eru oft settar á stall. Djúpt í vitundinni býr sú hugsun að þær séu búnar til af fáum og ætlaðar fáum. Að listin sé jafnvel aðeins afþreyingarform þeirra sem teljast til hástéttar í samfélaginu.

En þessi afstaða byggir á mjög alvarlegum misskilningi. Við höfum misst sjónar á tengslum listar við líf okkar. Að list er ekki lífsstíll heldur lífsvídd sem hver maður getur með einum eða öðrum hætti bætt við líf sitt.

Lærðir menn hafa gert mikilvægi listiðkunar fyrir hvern mann að umtalsefni í bókum og tímaritsgreinum. Sérstaklega er varað við því að halda að listavídd lífsins opnist mönnum sjálfkrafa t.d. með hækkuðum aldri. Það gerist ekki. Aðeins lifandi reynsla getur opnað þær flóðgáttir endurnýjaðs skilnings á mannlífinu sem býr í listum.Leiðbeiningar

Í sjálfu sér er einfalt að nota þennan vef til að kynnast ýmsu sem þar er fjallað um. Það er hins vegar kennarans að setja saman viðmið um hvað skal gera mikið af hverju og hver árangur þarf að vera til þess að nemandi fái vinnu sína metna inn í skólastarfið. Hér má finna nokkrar athugasemdir og ábendingar og er eðlilega mest fjallað um tónsmíðarnar þar sem þær eru mest framandi.Leiðbeiningar - Saga

Sögulegu textarnir eru skrifaðir með það í huga að gefa eins og svipmyndir inn í aldirnar, fólkið og áherslurnar í samfélaginu. Tónlistin er auðvitað í fyrirrúmi og flest í þessum textum er sett fram til þess að skýra stöðu hennar og hlutverk.

Þegar ýtt er á bendilinn til vinstri kemur notandinn inn á forsíðu tímabilsins. Þar er rakið í stórum dráttum sviðið sem farið er yfir í tengslum við tímabilið. Ef flett er áfram með flettitakka er komið inn á fyrstu síðu í sögutexta. Sögusíður eru fjórar til fimm. Þær fyrstu fjalla með almennum hætti um samfélagið og tónlistina. Seinni síðurnar segja yfirleitt frá einhverju sértækara innan tónlistarinnar. Að lokum er svo yfirlit sem er ekki samantekt úr hinum textunum heldur almenn lýsing á einhverju sem einkenndi tímabilið eða stuttlega sagt frá atburðum.

Á sögusíðunum er hægt að fá nánari skýringar á nokkrum orðum og hugtökum. Þessi orð eru tenglar á litla ramma sem innihalda skýringu í mismunandi löngu máli. Síðan er hægt að fara í skýringarlista og skoða þessar skýringar hverja á fætur annarri án þess að fara í gegnum sjálfa sögusíðuna.

Á sögusíðunum eru jafnfram nokkrar spurningar úr efninu svo að nemendur geti áttað sig á kunnáttu sinni. Þessar sömu spurningar rata svo, stundum í ögn breyttu formi, inn í safn krossaspurninga sem er grunnurinn á bak við próf sem nemendur geta tekið. Spurningar eru þá valdar af handahófi í hvert skipti en þar sem grunnurinn er enn ekki mjög stór birtast auðvitað oft sömu spurningarnar.Leiðbeiningar - Tónsmíðar

Tónsmíðaleiðbeiningarnar byggja á vandlega völdum aðferðum frá ýmsum tímum. Aðgerðum nemenda er skipt niður á þrep og er þeim ætlað að feta sig gegnum sköpunina stig af stigi með aðstoð og ábendingum í efninu og frá kennara.

Mikilvægt er að átta sig á því að ekki er ætlunin að endurskapa stílbrigði fyrri alda heldur aðeins kynnast aðferðum frá þeim tíma og verkum sem á þeim byggjast. Síðan eru aðferðirnar notaðar á annan efnivið og með breyttum hætti til að móta verk nemenda. Auðvitað gefa aðferðirnar stundum mjög sterkt stílbragð. En verk nemenda verða ekki metin með tilliti til þess hve þau líkjast fyrirrennurum sínum heldur því hvað nemandinn hefur lagt sjálfur af mörkum við vinnu sína.

Markmiðin mótast af áherslum í kennslunni hverju sinni. Heppilegast er sennilega að velja létt verkefni í byrjun fyrir alla og kynna þeim um leið vinnubrögðin. Gott er að hafa reynslu af notkun tónlistarforrita. Síðan er heppilegt að leyfa nemendum að velja sér leiðir því þannig fær hver hópur að heyra fjölbreytt tónverk í lok tímabilsins. Leitið leiða til að fá verkin leikin af fagmönnum – við það lifnar tónlistin svo aldrei gleymist!

Þetta safn þrepaskiptra aðferða er hugsað sem verkefnabanki sem kennari getur vísað nemendum í kannski tvisvar á ári. Þegar upp er staðið í lok grunnskólans ætti nemandinn að hafa skilað 5–8 verkefnum á fullnægjandi hátt og tekið eitthvað af þeim prófum sem bjóðast og náð tilskildum árangri.

Aðferðirnar eru misléttar og mikilvægt að vanda val viðfangsefna.

 • Organum - létt aðferð
 • Mótetta
 • Dans - létt aðferð – hægt að nota efnivið úr organum smíðinni
 • Passamezzo
 • Tilbrigðaverk
 • Endursmíði lags - tiltölulega létt
 • Framsaga - svolítið vélrænt en samt ekki létt
 • Frjálsari smíð
 • Ljóð án orða
 • Lagasmíð - eina tilfellið um texta með tónlistinni – því fjölbreyttara
 • Etýður - ekki þungt en krefst gleði í leik með tónana
 • Blús - létt aðferð og góð sem upphafsverkefni
 • Hughrif - tónfræðilega krefjandi
 • Tólftónasmíð - þungt verkefni, miklar pælingar

Hvað er gott og hvað má bæta?

Hvernig skal mati á framlagi nemenda í tónsmíðum vera háttað? Við þessari mikilvægu spurningu er ekki til neitt einhlítt svar. Bæði vegna þess að aðferðir við námsmat í listgreinum eru ekki staðlaðar og svo er lítil reynsla komin á kennslu í tónsmíðum með börnum.

Við megum ekki svíkja nemendur okkar um það að ræða um gæði tónlistar

Oft vill það brenna við þegar fólk hlustar á börn flytja tónlist að það hlustar í raun eftir því hvenær barnið gerir lítil eða stór mistök, slær kannski feilnótur. Á milli hinna svokölluðu „mistaka“ leikur barnið hugsanlega af mikilli innlifun og sýnir tónlistargáfur sínar með lifandi og persónulegri túlkun. Það er eftir því sem við hlustum þegar við kennum tónsmíðar.

 • Hvernig sýnir nemandinn færni sína í tónsmíðinni?
 • Fer hann á hugmyndaríkan hátt með efniviðinn?
 • Ræður hann vel við stílinn?
 • Eru laglínur áhugaverðar?
 • Er hljómmálið sannfærandi?
 • Er rytminn vel unninn og fellur hann vel að stílnum?
 • Eru hljóðfæri vel valin saman í lokaútsetningunni?
 • Er nemandinn sjálfur ánægður? (kannski mikilvægast)
 • Ef ekki, gefur hann verkinu þá orku sem þarf til að hann geti orðið ánægður?
 • Er nemandinn jákvæður og styðjandi í garð annarra í sömu stöðu?
 • Hefur almennt tekist að skapa andrúmsloft áhuga og samhjálpar í hópnum eða bekknum?
 • Eru nemendur virkir í hlustun sinni á verk annarra, bæði samnemenda og tónskálda?

Allt þetta skiptir miklu máli og margt fleira kemur til sem aldrei verður hægt að gera tæmandi lista yfir. Þetta fer mjög eftir markmiðum hvers kennara og þeim leiðum sem hann velur. En almáttugur, kynni einhver að hrópa upp, hvernig í ósköpunum á ég að skipuleggja kennslu í svona óskaplega flóknu fyrirbæri? Svarið er einfalt. Framkvæmdu þetta vegna lifandi áhuga á viðfangsefninu og gefðu nemendum þínum þannig dýrmætt fordæmi. Allt hitt fylgir þá áreynslulítið.Tónskáld

Stutt æviágrip tónskálda eru sett fram með það í huga að vekja áhuga á persónunni. Minna er í þessum textum gert úr staðreyndum úr lífi þeirra, stílbrögðum í tónlist eða yfirliti yfir helstu verk. Það hefur þegar verið gert vel mjög víða og tilvalið að leyfa nemendum að vinna með aðrar heimildir um tónskáldin ef áhugi vaknar.

Mörg merkileg tónskáld eru ekki kynnt með þessum hætti og víst að lengi mætti bæta við listann áður en hann yrði fullnægjandi sem yfirlit. En það er ekki markmiðið. Frekar ber að líta á þessi æviágrip sem tilraun til að gefa söguyfirlitinu persónulegri lit.Leiðbeiningar - Hlustun

Mörg þeirra verka sem valin eru til hlustunar hér eru dæmigerð fyrir það sem verið er að fjalla um, samin á tímum atburða sem getið er eða tengjast aðferðum tónskálda á viðkomandi tímabili.

Textunum sem fylgja með tóndæmunum er ætlað að auðvelda markvissari hlustun. Markviss hlustun er það þegar nemandi getur hlustað eftir ákveðnum fyrirbærum í tónlistinni og skorið úr um hvort það fyrirbæri birtist í tóndæminu. Hitt er að það getur verið auðveldara að hlusta á tóndæmin ef hlustandinn hefur eitthvað að lesa á meðan. Þess vegna fljóta stundum með fróðleikskorn sem geta vakið áhuga.

Kennari ætti að hjálpa nemendum sínum við að nálgast í heilu lagi verkin sem vekja áhuga þeirra. Einnig er mjög gott að bæta við hlustunina í tímum því tóndæmin rúma aðeins stuttan hluta úr mörgum þeirra stærri verka sem hér eru kynnt.Leiðbeiningar - Skýringar

Á sögusíðunum er hægt að fá nánari skýringar á nokkrum orðum og hugtökum. Þessi orð eru tenglar á litla ramma sem innihalda skýringu í mismunandi löngu máli. Undir titlinum Skýringar er þeim öllum safnað saman. Þar er hægt að skoða þær hverja á fætur annarri án þess að þurfa að fara í gegnum sjálfa sögusíðuna.Leiðbeiningar - Spurt og svarað

Á sögusíðunum eru jafnframt nokkrar spurningar úr efninu svo að nemendur geti áttað sig á því hvort þeir kunni eitthvað um það sem um er rætt.

Þessar spurningar er hægt að nálgast í einum lista undir yfirskriftinni Spurt og svarað – Kaflaspurningar.

Þessar sömu spurningar rata svo, í stundum ögn breyttu formi, inn í safn krossaspurninga sem er grunnurinn á bak við próf sem nemendur geta tekið. Spurningar eru þá valdar af handahófi í hvert skipti en þar sem grunnurinn er enn ekki mjög stór birtast auðvitað oft sömu spurningarnar.Ítarefni

Heimildavinna er ekki tónlistarleg í sjálfu sér og varhugavert að eyða mörgum af hinum örfáu tónmenntatímum sem börn fá á hverju ári í slíkt. Hins vegar hefur sjaldan verið meira spennandi að gramsa í heimildum og aldrei hafa þær verið jafn aðgengilegar og nú um stundir.

Nýjustu fréttir herma að allur bókakostur mannkyns verði orðinn aðgengilegur á netformi árið 2025.

Ábendingar um ítarefni hér eru ekki tæmandi en gefa hugmynd um hversu mikið efni er hægt að nota til að styðja við þá viðleitna að kynna sér og fræðast um tónlist.Ítarefni - Bækur

Hér verður listi yfir bækurÍtarefni - Tenglar

Íslenskir vefir um tónlist eru margir mjög góðir og upplýsandi. Sumir gefa yfirlit yfir tónlistargeirann og aðrir aðgang í glæsilega gagnagrunna með ótæmandi efni.

www.musik.is er góður leiðarvísir um netheima íslenskrar tónlistar og tónlistarmanna.

www.mic.is geymir skráningu á öllum verkum sem íslensk tónskáld hafa skilað inn í safn Íslenskrar tónverkamiðstövar til varðveislu og framleiðslu fyrir flytjendur um allan heim.

www.wwnorton.com/enjoy/ geymir stórkostlegt kennsluefni í vestrænni tónlistarsögu frá upphafi til okkar tíma. Þetta er vefur með öllu því flottasta sem hægt er að gera á þessu sviði.

ismus.musik.is/ er frábær gagngrunnur með handritum og hljóðritum frá fyrri öldum. Á Ísmús verður fljótlega líka að finna fjársjóð þegar þjóðlagasafn Bjarna Þorsteinssonar verður gert aðgengilegt. Íslensk þjóðlög eru tónskáldum ótæmandi uppspretta innblásturs og framsetning á safni Bjarna ómetanleg viðbót við vefheima íslenskrar tónlistar. Þarna er efniviður sem hægt er að nota með margvíslegum hætti.Ítarefni - Hljóðrit

Geisladiskar geyma orðið upptökur af allri vestrænni tónlist sem 20.öldin hafði aðgang að og menn gátu flutt á grundvelli tákna sem tónlist var rituð niður með. Ekki voru það alltaf nótur heldur gátu líka verið t.d. naumur. Þessi tónlistararfur er því ekki bara ómur frá fyrri tímum heldur lifandi afl í menningarumhverfi okkar. Á þeim er líka að finna alþýðutónlist síðustu hundrað ára auk þjóðlagatónlistar.

Aðgengi að upptökum er nú mun auðveldara en áður þar sem hægt er að fara á tónlistarveitur á Netinu og velja upptökur fyrir tiltölulega lítið gjald. Vert er að skoða þessa tækni og nýta sér hana.

Eitt af markmiðum þessa kennsluefnis er að gefa einstaklingnum yfirsýn og innsýn í vestræna tónlistarmenningu til að hann eigi hægara með að fóta sig í því mikla framboði af tónlistarútgáfum sem nú er til staðar.Ítarefni - Blöð og tímarit

Fjölmörg tímarit eru til um tónlist á erlendum tungumálum. Hvað íslenska útgáfu varðar þá er hægt að finna einstaka greinar í menningartímaritum, mikið í Lesbók Morgunblaðsins en sennilega mest á Netinu. Notkun á þessu efni er æskileg en vert að hafa í huga hvort nemendur valda heimildavísunum.

Skortur á faglegri umræðu um tónlist er áberandi á Íslandi. Ýmislegt gætu menn þó fundið athyglisvert í greinum gagnrýnenda og gaman að leyfa nemendum að bera saman sitt álit og annarra á tónverkum.Ítarefni - Um flutning

Íslensk tónskáld hafa verið gjöful og niðurskrifuð verk nema þúsundum. Sum eru smá en önnur stærri.

Tónskáldafélag Íslands hefur í aldarfjórðung haldið tónlistarhátíð sem kölluð er Myrkir Músíkdagar. Þá flytja frábærir íslenskir tónlistarmenn íslensk verk af öllum gerðum og oftar en ekki er um frumflutning að ræða. Vert að nýta þetta tækifæri til að hlýða á ferska samtímatónlist. Hátíðin er haldin í febrúar ár hvert.

Á Listahátíð í Reykjavík er einnig oft athyglisvert tónlistarframboð frá öllum tímum. Þó þess gefist kannski ekki alltaf kostur að sækja viðburðina þá er þess virði að skoða efniskrárnar og átta sig á því hvaða tónlist hefur orðið fyrir valinu hverju sinni.

Auk hátíðanna áðurnefndu eru fjölmargir tónleikar og tónleikaraðir þar sem heyra má efni frá ýmsum tímum. Einstaka flytjendahópar á Íslandi hafa sérhæft sig í flutningi tónlistar síðustu hundrað ára og er CAPUT-hópurinn mjög gott dæmi. Það er sennilega mikilvægast að fara á tónleika með framandi efni því öll er þessi tónlist jú skrifuð með tónleika í huga. Af geisladiski hljóma líka flest verk frá 20. öld, sem maður ekki þekkir, frekar fráhrindandi.Ítarefni - Útsendingar

Hjá Ríkisútvarpinu vinnur mikið af mjög fróðu tónlistarfólki. Fjölmargir dagskrárliðir þar geta verið athyglisverðir og með nýrri tækni er nú hægt að nálgast þætti í gegnum tölvur um tíma eftir fyrsta flutning þeirra.

Heimsnetið hefur auk þess gert útsendingar frá öðrum fjölmiðlum aðgengilegar og þar er hægt að nálgast nær ótæmandi hlustunarefni. Eitthvað er um beinar útsendingar af tónleikum á Netinu og hugsanlegt að það eigi eftir að aukast.Tónfræðiágrip

Í tónsmíðahluta námsefnisins skjóta upp kollinum nokkur grunnhugtök. Ekki er víst að allir hnjóti um þau. Þeim sem hikstalaust halda áfram er þetta aukaatriði og skiptir þá engu máli hvort viðkomandi þekkir hugtakið eða ekki. Fyrir þá sem hins vegar vilja vita ögn meira þá fylgja hér nokkrar útskýringar og skilgreiningar.

Rétt er að benda á að til er gott efni í tónfræði á íslensku sem hægt er að nýta. Einnig er til hljómfræði fyrir unglinga. Allt er þetta svo aðgengilegt á veraldarvefnum en að mestu leyti að ensku. Í öllu falli er óþarfi hér að fara út í mikla tónfræði þar sem svo gott aðgengi er að slíku efni.Tónfræðiágrip - Tónbil

Áttund, fimmund, ferund og þríund eru tónbil sem ágætt er að þekkja þegar maður stundar tónföndur. Það er þó ekki nauðsynlegt. Eftirfarandi eru örstuttar skýringar á þessum tónbilum.

Áttund Hlusta er í raun sami tónninn með helmingi hærri eða lægri sveiflutíðni. Því miður lítur hann þó ekki eins út á nótnastrengnum.

Hér sérðu tóninn C í nokkrum áttundum í bæði g- og f-lykli. Þú telur bara átta strengi og bil upp eða niður og þar situr næst áttund á áttunda streng eða bili. Mundu að nótan sem þú telur frá er númer eitt.

Fimmund Hlusta er sérstakt tónbil með sterk einkenni sem reyndir tónlistarmenn heyra mjög vel þegar hún er leikin. Þú telur bara fimm strengi og bil upp eða niður frá nótunni sem þú ert að fást við og þar situr fimmundin frá henni.

Hér sérðu fimmund frá c og heitir sú nóta g. Báðar nóturnar er svo hægt að færa upp eða niður í einu og er þá talað um samstígar fimmundir og var á tímabili lagt blátt bann við slíku því hljómurinn þótti svo ótrúlega ljótur. Slíkur söngur, fimmundasöngur, var þó sunginn lengi á Íslandi og er sunginn enn.

Lagið „A, b, c, d“ byrjar á fimmund. Sumir kunna svo lagið „Upp skepna hver og göfga glöð“. Það byrjar líka á fimmund. Ef tveir syngja upphafið á laginu og annar heldur fyrsta tóni meðan hinn færir sig á næsta tón þá heyrir maður samhljómandi fimmund.

Ferund Hlustahefur líka sérstakan blæ sem mörgum þykir hljóma betur en fimmundin. Tónninn sem er ferund fyrir ofan c er f og enn er hægt að telja strengi og bil upp í fjóra frá upphafsnótu og er þá komin staðsetning ferundarinnar. Sama er hægt að gera niður á við og fá þá ferundina fyrir neðan. Þú syngur ferund niður í upphafi lagsins „Göngum, göngum“.Þríund Hlustaer ólík áttund, fimmund og ferund að því leyti að það eru til af henni tvær megintegundir, stórar þríundir og litlar þríundir. Þríund á nótnastreng lítur þannig að á milli tveggja nótna er eitt bil og einn strengur. Báðar nótur þríundarinnar eru þá annaðhvort á streng eða bili. Þú syngur stóra þríund upp þegar þú syngur lagið „Allir krakkar, allir krakkar“. Lítil þríund hljómar fremst í laginu góða „Kvölda tekur sest er sól“.

Diabolus in musica Hlustaeða djöfullinn í tónlistinni var tónbil sem þótti svo ljótt að helst líktist því að hið illa hefði þar skotið upp kollinum. Þetta tónbil er hvorki ferund né fimmund heldur þar mitt á milli. Hægt er að skrifa þetta tónbil með c fyrir neðan og hækkað f fyrir ofan, s.s. fís, eins og hér sést. Þetta tónbil birtist með skemmtilegum hætti í upphafi þjóðlagsins „Ísland farsælda frón“, en ekki á milli fyrsta og annars tóns heldur fyrsta og þriðja.

Oft skýtur þetta tónbil upp kollinum í tónlistinni og því er ekki neita að hljómurinn er sérstakur. Ef þér líkar ekki hljómurinn einhvers staðar í verkum þínum skalta spyrja kennarann þinn eða reyndan tónlistarmann og ekki er alveg útilokað að hann finni þetta tónbil falið milli radda í verkinu og geti hreinsað það út. Hinir sem eru óhræddir við þennan hljóm ættu endilega ekki að láta taka tónbilið úr tónlistinni.Tónfræðiágrip - Tónsvið

Tónsvið Hlusta er bilið á milli hæsta og lægsta tóns sem rödd eða hljóðfæri nær að mynda. Þegar maður notar hljóðfæri til að leika nótnalínur í verkefnunum þá er ágætt að athuga hvort tónsvið hljóðfærisins passar við línuna. Hljóðin í tölvunni annað hvort hverfa eða verða mjög skrýtin ef nóturnar sýna tóna sem liggja langt út fyrir eðlilegt tónsvið hljóðfæranna. Þeir sem hafa fiktað í píanói vita að efstu tónarnir og þeir neðstu er frekar lítið notaðir þegar fólk leikur tónlist á hljóðfærið. Þannig ná sum hljóðfæri yfir víðara tónsvið en í raun hljómar vel. Hér á myndinni sérðu tónsvið píanós og fiðlu.Tónfræðiágrip - Hrynur

Hrynur Hlusta er oftast frekar einföld fylling upp í hvert slag í tónlistinni. Slag er grunntakturinn sem hver maður finnur sem hlustar á tónlist.

Einfalt er að fylla slag með einni nótu. Það er heldur ekki flókið að fylla það með tveimur nótum sem eru þá helmingi hraðari en slagið. Og ekki er óalgengt að fylla slagið með fjórum jafnlöngum nótum sem eru þá fjórum sinnum styttri í hljóm en slagið sjálft. Þetta fellur allt svo vel að slaginu og passar svo vel.

Aðeins öðruvísi er að fylla slag með t.d. þremur jafnlöngum nótum eða fimm. Þá kallast það þríóla eða fimmóla. Svo er auðvitað hægt að miða ekki bara við eitt slag heldur til dæmis tvö slög. Þrjár nótur inn í tvö slög er mögulegt eða hvað annað sem manni dettur í hug. Hrynmyndin í tónlist er mjög mikilvægt einkenni hennar og því vert að vanda til verka. Einfalt ráð til að styrkja góða en sérkennilega hrynhugmynd er að endurtaka hana hóflega þannig að hlustandinn kannist við hana.Tónfræðiágrip - Lyklar

G-lykill og f-lykill eru ekki einu lyklarnir sem notaðir eru til þess að opna nótnastrenginn í niðurritaðri tónlist en þeir eru þeir einu sem eru notaðir hér. Lyklarnir eru notaðir til að ákvarða á hvaða tónsviði nóturnar liggja sem á strenginn eru skrifaðar. Hér sérðu nokkrar nótur í g-lykli og svo nótur á sömu stöðum í f-lykli. Nöfnin á nótunum fyrir neðan sýna hvernig lykillinn breytir því um hvaða nótu er að ræða.

Hlusta


Tónfræðiágrip - Nótnalengd

Nótur hljóma mislengi áður en næsta nóta hljómar eða þögn tekur við. Þetta er skrifað með því að nota nótnahausa, nótnahálsa og nótnafána. Auk þess er nótanlengd breytt með því að setja punkt fyrir aftan nótnahausinn.

Hlusta

Fyrsta nótan á myndinni hér er heilnóta með tóman haus og engan háls. Næsta nóta er hálfnóta og hljómar hún helmingi styttri tíma en heilnótan. Hún hefur tóman haus, háls en engan fána. Fjórðaparts nótan þar á eftir hljómar bara fjórðung tíma heilnótunnar. Hún er með fylltan haus og nótnaháls en engan fána. Allar nótur sem hljóma styttra en fjórðapartsnótan eru með einn eða fleiri fána. Þær algengustu eru áttundapartsnóta og sextándapartsnótan – sú fyrri með einn fána og sú síðari með tvo. Ef þær tengjast saman þá breytast fánarnir í bjálka á milli nótna. Aftast sérðu svo hvernig punktar við nótu geta breytt hrynmynstri.Efnisyfirlit

Þú getur flett á milli tímabila og séð efnisyfirlit hvers fyrir sig, en hér fylgir líka heildarlisti yfir tónsmíðaaðferðirnar og flokkun á þyngdarstigi þeirra.

Aðferðirnar
Tónsmíðaaðferðirnar eru 2 - 3 á hverju tímabili og þær eru misþungar og krefjandi. Leiðirnar sem hér eru boðnar til að setja saman tónlist með því að föndra nótur á strengi eftir leiðbeiningum eru nokkrar og ólíkar.

Listinn hér fyrir neðan getur hjálpað þér að velja verkefni. Það er mjög viturlegt að velja heldur létt verkefni í byrjun og kynnast um leið því tónlistarforriti sem þú ætlar að nota.

 • Organum   Miðaldir   létt
 • Mótetta   Miðaldir   miðlungs
 • Endurreisnardans   Endurreisn   létt
 • Passamezzodans    Endurreisn   létt
 • Tilbrigði    Barokk   miðlungs
 • Endursmíð lags 1    Barokk    létt
 • Endursmíð lags 2    Barokk    erfiðara
 • Sónötukafli 1    Klassík    miðlungs
 • Sónötukafli 2    Klassík    erfiðara
 • Ljóð án orða    Rómantík    miðlungs
 • Lagasmíð    Rómantík    erfiðara
 • Etýða-æfing    Rómantík    erfiðara
 • Blús    20. öldin    létt
 • Hughrif    20. öldin    miðlungs
 • Tólftónasmíð    20. öldin    erfiðara

Aðferðunum er skipt niður í nokkur þrep og í hverju þrepi eru tillögur um hvernig má leysa verkefni þrepsins á auðveldan hátt og svo ítarefni sem ætlað er að gefa dæmi um hugmyndir að nálgun. Tóndæmin sem fylgja hverju þrepi eru eingöngu ætluð til sýningar á því hvernig hlutirnir geta litið út og hljómað á hinum ýmsu vinnslustigum.

Reynt er að hafa dæmin skýr og stutt en oft er það á kostnað tónlistarlegs innihalds. Stundum hljóma þessi dæmi eins og í þeim sé að finna tónlist en önnur eru afskaplega fátækleg. Ef fyrirmælin eru nógu skýr þá er hægt að hlífa sér við því að hlusta of mikið á dæmin. Það getur líka verið hættulegt vegna þess hve eyrað fer að stjórnast mikið af því sem það heyrir.Um vefinn

Höfundur texta og tóndæma:
Sigfríður Björnsdóttir

Vinnsla texta, mynda og tóndæma:
Halldóra Björnsdóttir og Bjarki Sveinbjörnsson

Forritun og vefgerð:
Ásta Olga Magnúsdóttir og Daði Ingólfsson

Útlitshönnun:
Hafdís Jónsdóttir

Ritstjóri:
Ingólfur Steinsson

Verkefnisstjóri:
Hildigunnur Halldórsdóttir


Námsgagnastofnun 2004


Hagþenkir studdi gerð vefjarinsUm vefinn - Heimildaskrá

Heimildaskrá