Til kennara

Tilgangur þessa vefs er að gera Google Earth að öflugu náms- og kennsluverkfæri. Verkefnin eru sniðin að nemendum og miða að því að auka hæfni þeirra í notkun Google Earth hvort heldur er í skólum eða utan þeirra.

Forritið Google Earth auðveldar nemendum og kennurum að tengja fræðilegar upplýsingar úr námsbókum við daglegan veruleika og býður upp á rafræn og gagnvirk vinnubrögð í landafræði. Forritið nýtist þó ekki aðeins sem tæki til að vafra um heldur geta nemendur unnið ýmis verkefni með hjálp þess. Kostir þess að nota forrit eins og Google Earth eru að myndræn framsetning námsefnis hjálpar nemendum að öðlast dýpri skilning því þar er það sett í raunverulegt samhengi.

Google Earth er gagnvirkt tölvuforrit sem hægt er að sækja á veraldarvefinn án endurgjalds og því tilvalið að nota í skólum. Forritið sýnir hnattlíkan í þrívídd sem er sett saman af fjölda gervihnatta- og loftmynda sem raðað er saman og mynda þannig eina heild. Google Earth má því líkja við bútasaumsteppi sem stækkar hratt því nýjar nákvæmari myndir bætast stöðugt í safnið og gefa skýrari mynd af landsvæðinu.

Góða skemmtun

Sækja kennsluleiðbeiningar á pdf formi