HÁHYRNINGUR

Orcinus orca

Háhyrningurinn er næststærstur tannhvala hér við land, aðeins búrhvalur er stærri. Fullorðnir háhyrningstarfar geta orðið um 9 metra langir og vegið um 8 tonn. Kýrnar eru nokkru minni og eru þær stærstu rúmir 7 metrar og vega um 4 tonn. Háhyrningurinn er talinn geta orðið 50 til 60 ára gam

Höfuðið er kúpt og mótar rétt fyrir snjáldrinu. Hann er gildastur um miðjuna og hefur sterklega stirtlu. Hornið er á miðju baki, beint upp, hátt (1 til 2 m) og þríhyrningslaga hjá törfunum en mun minna og aftursveigt hjá kúnum. Sporðblaðkan er breið og þver fyrir að aftan og bægslin eru stór og spaðalaga og talsvert stærri hjá törfunum en kúnum. Í kjafti eru 20 til 26 tennur í hvorum skolti.

Háhyrningurinn er svartur á baki og síðum en hvítur á kvið og eru skil milli litanna mjög skörp. Rétt ofan og aftan við augun er lítill, ílangur hvítur blettur og einnig nær hvítur flekkur frá kvið upp á síðuna aftan til á dýrinu. Svarti liturinn nær saman undir stirtlunni en sporðblaðkan er svört að ofan og hvít að neðan. Aftan við hornið er gráleitur sveipur (söðull) sem er mismunandi að lögun og lit milli dýra.


Spila myndband
Hægt er að þekkja einstaka háhyrninga á lögun hornsins og gráa söðulsins aftan við hornið. Með því að bera saman ljósmyndir af háhyrningum frá mismunandi svæðum og mismunandi tímum má fá upplýsingar um ferðir einstakra dýra, tengsl milli dýra, samsetningu hópa og ýmislegt fleira er varðar hegðun þeirra.

Háhyrningur Háhyrningurinn lifir um öll heimsins höf en er sjaldgæfastur á hitabeltissvæðum. Hann er um allt Norður-Atlantshaf og norður í Norður-Íshaf að ísröndinni. Við Ísland er hann allt í kringum land.

Háhyrningurinn er sólginn í síld en étur einnig ýmsar aðrar fisktegundir, svo sem loðnu, þorsk og lúðu. Einnig étur hann önnur sjávarspendýr. Svo virðist sem háhyrningarnir sérhæfi sig að nokkru leyti í fæðuvali og að sumir hópar lifi til dæmis að stórum hluta á selum og jafnvel öðrum hvölum. Til eru margar frásagnir af háhyrningum sem ráðast í hópum á stærri skíðishvali og rífa á hol.

Hér við land hafa háhyrningar ekki verið veiddir til matar en á árunum 1976 til 1987 voru veidd hér nokkur dýr sem voru seld lifandi til sædýragarða víða um heim.

Háhyrningar halda sig í fjölskylduhópum sem oftast eru á bilinu 5 til 30 dýr. Stundum renna hóparnir tímabundið saman og geta þá verið yfir 100 dýr saman í hóp. Dýrin í hverjum hópi eru trygg hópnum og sjást saman ár eftir ár. Samsetning hópana er nokkuð lík. Í hverjum þeirra eru örfáir fullorðnir tarfar en mun fleiri kýr og ókynþroska dýr. Kýrnar verða kynþroska 6 til 10 ára en tarfarnir 12 til 16 ára. Kýrnar bera eftir um 17 mánaða meðgöngu og er kálfurinn á spena í meira en eitt ár eftir burð. Talið er að hver kýr beri að jafnaði með 3ja til 5 ára millibili.

Talið er að nokkur þúsund háhyrningar haldi sig að staðaldri hér við land. Dýrin færa sig milli staða og elta fæðuna í árstíðabundnum göngum hennar. Háhyrningar, sem virðast sækjast sérstaklega eftir síld, elta síldargöngurnar. Þeir eru við Vestmannaeyjar á sumrin þar sem síldin hrygnir og við Austfirði á vetrum, þar sem síldin hefur vetursetu. Svo virðist sem sömu hóparnir komi ár eftir ár á sömu svæðin.