ÁLKA

Alca torda

Álkan er einn af svartfuglunum. Álkur eru um 40 cm háar og um 600 g á þyngd. Vænghaf þeirra er 65–70 cm. Á sumrin er hún með hvíta bringu en svart höfuð og bak. Á veturna nær hvíti liturinn upp á kverkina og upp með augunum að aftan. Nefið er stórt og hliðflatt, dökkt með ljósri þverrák en einnig liggur langrák milli nefs og augna. Enginn útlitsmunur er milli kynja. Álkan á erfitt með gang en syndir og kafar af snilld. Á sundi er hún létt á bárunni og sperrir stélið oft upp.

Álkur halda sig mest úti á rúmsjó. Um mánaðarmótin febrúar-mars fara þær að koma upp að fuglabjörgunum. Þær velja sér hreiðurstæði efst í björgunum eða í urðum undir þeim en sjaldan á hinum eiginlegu syllum.


Spila myndband

Álka Álkan er Norður-Atlantshafsfugl sem verpir bæði við strendur Kanada og Evrópu allt suður til Normandí í Frakklandi.

Álkan er fyrst og fremst smáfiskaæta en étur þó einnig ljósátu, burstaorma, rækjur og fleiri smádýr.

Fjöldi eggja: 1

Eggjaskurn: ljóst með dökkum dröfnum og ekki eins keilulaga og langvíuegg Stærð eggja: þau eru 7,5-8 cm löng og 5 cm í þvermál.

Álkan er sjófugl sem aðeins kemur upp á land til að verpa. Hún velur sér gjarnan stórgrýttar urðir undir fuglabjörgum sem varpstað. Hreiðurgerð er engin og eggið aðeins eitt. Foreldrar skipta með sér útungun og síðan fæðuaðdráttum. Eftir að unginn kemur á sjóinn er hann er hann aðallega í umsjá föðurins. Hjá álkum er makatryggð alla ævi.

Allir svartfuglar hafa verið mikið nýttir frá upphafi Íslandsbyggðar. Álkan er þar engin undantekning. Bæði voru þær og eggin borðuð auk þess sem fiðrið var notað í sængur, kodda og sessur.

Álkan er glæsilegur fugl, þó þykir ekki gott að vera álkulegur. Meirihlutinn af álkum heimsins verpa á Íslandi.

Meirihluti íslenskra álka verpir í Stóruurð undir Látrabjargi.

Álkur þykja veðurglöggar því þær koma oft upp undir land nokkrum dögum áður en vetraróveður skellur á.

Latneska nafnið alca er dregið af norræna heiti fuglsins.

Gömul heiti á álkunni eru klumbunefja og drumbnefja.

Á ensku heitir álkan razorbill (rakvélablaðs-nefur).

Á frönsku heitir álkan petit pingouin (litla mörgæs).