SKORUÞÖRUNGUR
Skoruþörungar eru einfrumungar sem hafa tvær skorur. Önnur liggur aftur eftir þörungnum en hin þvert. Í hvorri skoru er ein svipa sem skoruþörungurinn notar til sunds. Vegna smæðar sinnar geta þeir ekki synt langt. Með sundinu hafa þeir þó möguleika á að færa sig til í sjónum og hafa því möguleika á að halda sig þar sem birtuskilyrði eru góð.
Skoruþörungarnir eru mest áberandi á sumrin þegar lítið er af kísilþörungum í svifinu. Nokkrar tegundir skoruþörunga geta ljóstillífað en aðrar ekki. Margir þeirra geta nýtt sér uppleyst lífræn efni sem næringu og geta jafnvel étið aðrar smáar lífverur í svifinu. Það má því segja að meðal skoruþörunganna séu bæði dýr og plöntur.