HNÍSA
Phocena phocena
Hnísan er minnst allra hvala við Ísland. Fullvaxin er hún venjulega 1,4 til 1,7 metra löng og algengt er að hún vegi um 50 kg. Höfuðið er lítið með kúpt enni og stutt snjáldur. Munnurinn er lítill og tennur smáar, um 50 í hvorum skolti. Augun eru rétt fyrir aftan munnvikin og blástursholan er þar beint fyrir ofan. Bolurinn er sívalur, gildastur um miðjuna. Sporðblaðkan er fremur stór og klofin í miðju. Bægslin eru framarlega á síðunum og eru mjó og oddhvöss. Hornið er ofan á bakinu, fyrir miðju, fremur lítið og sveigir la.ítillega aftur. Hnísan er svört á bakinu og á síðum en hvít á kvið. Hún getur orðið um eða yfir 20 ára gömul en flest dýrin deyja áður en þau verða 10 ár
Hnísan lifir í Norður-Atlantshafi, frá Barentshafi og Hvítahafi í norðri suður til Azoreyja, vestur af Portúgal. Hún er einnig í Eystrasalti og Miðjarðarhafi. Við vesturströnd Norður-Ameríku lifir hún norðan frá Baffinslandi suður til New York. Hnísan lifir einnig í Norður-Kyrrahafi. Við Ísland er hnísan allt í kringum land. Hún kemur að landinu síðla vetrar, heldur sig nálægt ströndinni yfir vorið og sumarið og sést þá oft inni á fjörðum og flóum nálægt landi. Í vetrarbyrjun fara hnísurnar frá landinu og halda sig úti á rúmsjó sunnar í Norður-Atlantshafi yfir veturinn.
Hnísur lifa fyrst og fremst á smáum fiskum, einkum síli og loðnu. Smokkfisk, karfa og ýmsar tegundir þorskfiska éta þær þó einnig.
Ekki eru stundaðar beinar veiðar á hnísu hér við land, en algengt er að hnísur festist í fiskinetum og eru þær þá oft nýttar til matar.
Hnísan verður kynþroska tveggja til þriggja ára gömul hér við land. Fengitími hennar er í júlí og ágúst og einn kálfur fæðist í maí eða júní eftir um 10 mánaða meðgöngu. Kálfarnir fylgja mæðrum sínum og sjúga spena í 7 til 8 mánuði eftir fæðingu.