BELTISÞARI

Laminaria saccharina

Beltisþari er brúnþörungur, með greinótta festusprota neðst, upp af þeim er sívalur stilkur og aflöng, ógreind blaðka er á enda hans. Blaðkan er hrufótt, með bylgjóttum jaðri og er án miðtaugar. Beltisþarinn getur orðið meira en fimm metra langur. Algengast er hins vegar að hann sé 1,5 til 2,5 metrar á lengd og blaðkan venjulega 20 til 30 cm breið. Þar sem er skjólsælt er blaðka beltisþara þunn og getur orðið meira en 1 metri á breidd en á brimasömum stöðum er hún mjó og þykk. Beltisþarinn er brúnn eða gulbrúnn á litinn.

Vöxtur beltisþarans verður á mótum stilks og blöðku, þar bætist ofan á stilkinn og neðan á blöðkuna. Toppurinn er því elsti hluti blöðkunnar. Beltisþari vex á tímabilinu frá desember fram í júní og getur blaðkan lengst um 1 til 2 cm á dag þegar vöxturinn er mestur. Um sumarið er lítill eða enginn vöxtur og strax um haustið fer að slitna ofan af plöntunni sem styttist smám saman þar til vöxtur hefst að nýju í desember. Dökkir og ljósir vaxtarbaugar, árhringir, myndast í stilk hans líkt og hjá trjám. Hægt er að aldursgreina beltisþarann með því að telja baugana í stilknum. Elstu plöntur eru 5 ára.


Beltisþari vex í Norður-Atlantshafi. Útbreiðsla hans nær norðan frá Hvítahafi og Svalbarða suður til Norður-Portúgal. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir hann frá Baffinslandi suður til New York. Beltisþari vex einnig í Norður-Kyrrahafi.

Beltisþari finnst allt í kringum Ísland og er ríkjandi tegund á malarbotni þar sem fremur skjólsælt er en vex einnig á miðlungs brimasömum stöðum. Beltisþari vex neðst í fjörum og neðan fjörunnar allt niður á 25 metra dýpi.

Beltisþari hefur tvo ættliði, grólið og kynlið. Gróin myndast í grósekkjum á blöðku þarans (gróliðsins) á haustin. Hvert gró er minna en 1 hundraðshluti úr millímetra í þvermál, baunalaga, með tvo svipuþræði. Gróin berast með straumum í stuttan tíma eftir að þau losna og setjast síðan á botninn.

Á botninum vaxa gróin í þráðlaga kven- og karlplöntur, kynliði, sem eru smásæir. Á karlplöntunum myndast frjóhirslur en á kvenplöntunum egghirslur. Frjóin líkjast gróunum og hafa tvær svipur sem þær nota til sunds. Eggin eru um 20 sinnum stærri en frjóin og hafa engin sundfæri.

Þegar eggið er fullþroskað, gefur það frá sér "ilmefni" sem frjóin skynja. Það veldur því að þau losna frá karlplöntunni, synda að egginu og frjóvga það. Frjóvgaða eggið byrjar að skipta sér og vaxa á meðan það situr á kvenplöntunni. Það festir sig við botninn, blaðkan aðgreinist frá stilknum og tekur smám saman á sig mynd þarans, með festusprotum, stilk og blöðku.

Beltisþari hefur, ásamt öðrum þara, verið notaður til fóðurs og þótti gott fóður. Athuganir hafa sýnt að hæfilegt magn af þara í fóðri hefur til dæmis góð áhrif á vöxt húsdýra, mjólkurmagn hjá kúm og varp hjá hænum. Beltisþari hefur ekki verið notaður til matar á Íslandi en í Suðaustur-Asíu er þari borðaður í miklum mæli. Japansþari (Laminaria japonica) er sú þarategund sem mest er neytt af. Japansþari líkist beltisþara bæði hvað varðar útlit og bragðgæði. Tilvalið er að nýta beltisþara til matar og hentar hann í margs konar matreiðslu.