BÓLUÞANG

Fucus vesiculosus

Bóluþang er brúnþörungur. Plantan er 40 til 90 cm há. Blöðin eru
1 til 2 cm breið með greinilegri miðtaug. Blöðin kvíslgreinast með tiltölulega reglubundnum hætti. Á bóluþanginu eru hnöttóttar loftfylltar blöðrur sem eru tvær og tvær (stundum þrjár) saman, sín hvorum megin miðtaugarinnar. Blöðrurnar eru oftast ofan til á þanginu en stundum er þær í þéttum röðum niður eftir allri plöntunni. Bóluþangið er brúnt en stundum grænleitt eða brúnleitt.


Bóluþangið vex í Norður-Atlantshafi frá Hvítahafi í norðri, suður til Biscayaflóa við Frakklandsstrendur. Á austurströnd Norður-Ameríku vex bóluþang norðan frá Baffinslandi í Kanada suður til New York. Bóluþang vex allt í kringum Ísland. Það vex á steinum eða klöppum í fjörum og er venjulega mest af því um miðja fjöruna.