HNÚFUBAKUR

Megaptera novaeangliae

Hnúfubakurinn er 14 til 16 m á lengd og vegur um 30 tonn fullvaxinn. Hann er fremur digur og klunnalegur hvalur með stóran haus. Snoppan er breið með raðir af hnúðum. Sams konar hnúðar eru á hliðum neðri skolts. Hnúðar eru einnig aftur eftir haus, aftur að blástursopi. Neðan í efri skolti hanga rúmlega 600 hornplötur, skíði, sem hnúfubakurinn notar við að sía fæðuna úr sjónum. Augun eru rétt aftan við munnvikin. Bægslin eru mjög löng, allt að þriðjungur af lengd alls dýrsins. Þau eru ofarlega á síðunum skammt aftan við augun. Á frambrún bægslanna eru hnúðar. Hornið er lítið og aftursveigt og er aftarlega á bakinu. Neðan á hnúfubaknum eru um 20 til 35 húðfellingar (rengi) sem ná frá skolti og aftur fyrir mitt dýr.

Liturinn er mjög breytilegur. Bakið er oftast svart eða grátt en kviðurinn ljós með hvítum dílum. Bægslin eru oftast hvít, stundum svartflekkótt. Blástursopið er ofan á haus og rétt áður en dýrið kafar blæs það stuttum blæstri beint upp í loftið. Þegar hnúfubakurinn fer í djúpkaf lyftir hann oft sporðinum upp úr vatnsskorpunni. Sníkjudýr eru áberandi utan á hnúfubaknum. Aðallega hrúðurkarlar, hvalalýs og helsingjanef.


Spila myndband
Um fengitímann syngja hnúfubakar. Söngur þeirra hefur ákveðið stef sem öll dýrin syngja það árið. Næsta ár er breytt um stef og öll dýrin læra að syngja nýja stefið.

Hnúfubakur Hnúfubakurinn er um öll heimsins höf. Í Norður-Atlantshafi lifir hann frá Vestur-Afríku og Vestur-Indíum norður til Norður-Íshafsins. Við Ísland sést hann allt í kringum land.

Hnúfubakurinn lifir á ljósátu og étur einnig talsvert af loðnu, síld, síli og öðrum smáfiski.

Hnúfubakur var mikið veiddur hér við land um aldamótin 1900. Honum fækkaði þá verulega og var orðinn mjög sjaldgæfur þegar hann var friðaður árið 1955. Síðan hefur honum fjölgað tiltölulega hratt og er nú talinn hafa náð þeim fjölda sem var áður en veiðar á honum hófust hér við land.

Hluti af dýrunum heldur sig hér í Norður höfum yfir veturinn og elti gjarnan loðnu sem gengur í torfum til hrygningar í byrjun árs. Hnúfubakurinn er fardýr. Hann kemur til Íslands á vorin í fæðuleit og dvelur hér við land yfir sumarið. Á haustin heldur hann aftur suður á bóginn til æxlunar. Helsta æxlunarsvæði hnúfubaksins í Atlantshafi er við Vestur-Indíur. Hann sést oft í hópum, er hægsyndur og forvitinn. Hann getur stokkið upp úr sjónum og lætur sig þá oft detta á bakið eða hliðina.

Þegar hnúfubakurinn fer í djúpkaf, lyftir hann oft sporðblöðkunni og sést þá litamynstur á henni og hafa engin tvö dýr eins mynstur. Þannig er hægt að þekkja dýrin hvert frá öðru. Með því að ljósmynda hnúfubaka á ýmsum stöðum í hafinu og bera saman myndirnar fást upplýsingar um ferðir dýranna milli hafsvæða. Hnúfubakar sem sést hafa hér við land að sumri til, hafa sést aftur nokkrum mánuðum síðar í Vestur-Indíum.