MAKRÍLL

Scomber scombrus

Makríll er straumlínulagaður og hraðsyndur fiskur, oftast um 30–50 cm að lengd. Hann er kólflaga, þéttholda og mjókkar smám saman aftur og hefur mjóa stirtlu. Hausinn er í meðallagi stór, mjókkar fram í odd og er með fremur stór augu. Húðfellingar falla yfir augun og lokast þannig að lóðrétt rauf verður þvert á augað. Makríll er kjaftstór og jafnmynntur sem þýðir að efri og neðri skoltur ná jafn langt fram. Í skolti eru stuttar og mjóar en beittar tennur. Uggar eru fremur litlir. Bakuggar eru tveir og er sá fremri framarlega á baki en hinn aftarlega, við stirtlu. Ofan og neðan á stirtlunni eru fjórir til sex smáuggar. Gotraufaruggi er neðan á fiskinum, rétt framan við stirtlu, og kviðuggar framarlega. Eyruggar eru litlir og eru framarlega, um og ofan við miðjar hliðar. Sporðurinn er stór og sýldur sem kallað er, þ.e. klofinn að aftan. Hreistrið er mjög smátt og þunnt.

Á baki er makríllinn blágrænn, oft með fjólublárri slikju. Óreglulega bylgjótt, fingrað mynstur nær skammt niður á hliðar. Á hliðunum er hann að öðru leyti silfurglitrandi og hvítur á kviði. Framan á haus er makríllinn dimmblár og uggarnir eru gráir.


Makríll lifir í Svartahafi, Miðjarðarhafi og í Norður-Atlantshafi. Við strendur Evrópu lifir hann frá norðanverðum Noregi suður til Marokkó og við austurströnd Norður-Ameríku frá Labrador í Kanada, suður til Norður-Karólínufylkis í Bandaríkjunum. Hann lifir einnig við Færeyjar og Ísland.

Hér við land hefur makríll veiðst allt í kringum land. Hann er uppsjávarfiskur sem er bæði inni á fjörðum og úti á landgrunninu. Makríllinn er mikill göngufiskur sem fer um í stórum torfum. Hann hrygnir alllangt sunnan og suðaustan Íslands en gengur norður eftir í fæðuleit á sumrin. Hingað til lands hefur hann sótt í mismiklum mæli og er yfirleitt algengur við landið þegar sjór er hlýr en sést varla þau ár sem sjór er kaldur.

Makríll lifir á ýmiss konar sviflægum krabbadýrum, einkum rauðátu og ljósátu, en étur einnig fiskungviði. Ef mikið er af sandsíli, loðnu eða öðrum smáfiskum étur makríllinn gjarnan þær tegundir.

Makríllinn sem hér dvelur hrygnir á svæðinu vestur af Bretlandseyjum og djúpt úti fyrir Suðausturlandi. Hann hrygnir uppi í sjó á vorin. Hrognin berast með straumum við yfirborð og klekjast út þar. Þegar lirfan klekst út er hún um 3,5 cm að lengd. Eftir klak nærast lirfurnar í fyrstu á forðanæringu sem þær hafa í kviðpoka. Þegar sá forði er búinn verða þær sjálfar að afla sér fæðu. Til að byrja með lifa þær á lirfum rauðátunnar, en eftir því sem makríllirfurnar stækka geta þær tekið stærri fæðu. Seiðin vaxa mjög hratt í byrjun og eru eftir fyrsta sumarið orðin að 15 til 20 cm löngum ungfiski. Makríllinn verður kynþroska þriggja ára gamall en algengt er að hann verði yfir 20 ára gamall.

Makríll var lítið veiddur við Ísland þar til árið 2006. Eftir það jókst aflinn hröðum skrefum og hefur farið yfir 100 þúsund tonn. Hann er aðallega veiddur í hringnót og í flotvörpur. Þegar mikið er um makríl við Ísland er talsvert um að hann sé veiddur á handfæri á smábátum og einnig fæst hann á veiðistöng við ströndina.

Makríllinn hefur engan sundmaga og þar sem eðlisþyngd hans er meiri en eðlisþyngd sjávar þarf hann að vera á stöðugu sundi til sökkva ekki. Makríllinn syndir oftast með opinn munninn til að sjór streymi um tálknin og hann fái nóg súrefni.