KERLINGARHÁR
Desmarestia aculeata
Kerlingarhár er brúnþörungur sem er oftast 30 til 70 cm hár en getur orðið allt að 2 m. Kerlingarhár er fest við klappir eða steina með öflugri festuflögu og upp af henni er sívalur stilkur. Upp af stilknum greinist plantan á óreglulegan hátt. Greinarnar eru fremur stinnar, grannar og flatvaxnar. Snemma á vorin myndast ljósbrúnir, fíngerðir og greinóttir hárskúfar á greinunum sem detta aftur af í byrjun sumars. Þar sem hárskúfarnir voru eru nú stuttir þyrnar sem standa á víxl, sitt hvorum megin, upp eftir greinunum.
Kerlingarhár er dökkbrúnt á litinn og getur orðið rauðbrúnt á haustin. Það byrjar að vaxa seinni hluta vetrar og er fullsprottið í byrjun sumars. Á haustin slitna greinarnar af svo eftir stendur aðeins stilkurinn og slitrur af greinum. Upp af stilknum vaxa síðan nýjar greinar næsta ár. Kerlingarhár getur lifað í 3 til 4 ár.
Mestur vöxtur er í kerlingarhári á vorin og er það fullsprottið í byrjun sumars. Á sumrin og á haustin getur kerlingarhár slitnað upp í miklu magni og flækist þá gjarnan í net og veldur fiskimönnum við ströndina búsifjum
Við strendur Evrópu nær útbreiðsla kerlingarhárs frá Barentshafi í norðri, suður til Portúgal. Við Austurströnd Norður-Ameríku vex það frá Baffinslandi, suður til New Jersey í Bandaríkjunum.
Kerlingarhár vex í sjónum allt í kringum Ísland. Það er bæði að finna á skjólsælum stöðum og brimasömum. Það vex frá neðri mörkum fjörunnar, niður á 20 til 30 m dýpi