KÓRALÞANG

Corallina officinalis

Kóralþang er kalkkenndur rauðþörungur. Það er oftast 3 til 8 cm langt en getur orðið 12 cm. Plantan vex upp af skorpulaga festu sem hefur óreglulega lögun og getur verið allt að 7 cm í þvermál. Hún er greinilega liðskipt, gerð úr stuttum kalkkenndum, sívölum liðum. Greinarnar eru gagnstæðar og og sitja þétt eins og fanir á fjöður. Þær eru lengstar neðst, næst festunni en styttast eftir því sem nær dregur toppi. Litur kóralþangs er fjólublár, rauður eða bleikur, oftast þó hvítur á endum greina og við liðamót. Æxlunarfærin eru perulaga og sitja á endum greinanna. Það eru æxlunarfærin sem detta af þegar plantan æxlast um sumarið.

Kóralþang er fjölær planta. Þegar vöxtur er hraðastur vex hún um 0,2 til 1 mm á mánuði. Heildarársvöxturinn er þó sennilega sjaldan meiri en 1 til 3 mm við það hitastig sem ríkir hér við land.


Kóralþang lifir um öll heimsins höf. Það lifir beggja vegna Norður-Atlantshafsins frá Norður-Íshafi suður til Marokkó Evrópu megin. Meðfram austurströnd Ameríku vex hún norðan frá Baffinslandi suður í Karíbahaf. Það er einnig í Miðjarðarhafi, sunnanverðu Atlantshafi og Kyrrahafi.
br> Við Ísland má finna kóralþang í öllum landshlutum. Það lifir á steinum neðan til í fjörunni en finnst einnig í fjörupollum upp að efstu fjörumörkum. Neðan fjörunnar hefur kóralþang fundist niður á 20 m dýpi. Kóralþang vex á steinum og klöppum, bæði á skjólsælum og brimasömum stöðum.