KRÍA
Sterna paradisaea
Krían er einn af þeim íslensku fuglum sem geta sagt nafnið sitt. Hverjir eru hinir?
Hún er minni en margir halda eða aðeins um 35 cm á lengd og 100-120 g að þyngd.
Kríur eru miklir flugsnillingar. Oft steypa þær sér eldsnöggt niður eftir fæðu eða til að fæla burtu óvini. Þær eru mjög félagslyndar en setjast sjaldan niður hvorki á land né sjó
Kríur eru með þekktustu túristum dýraríkisins. Þær verpa við nyrstu strendur jarðar en hafa vetrardvöl við þær syðstu. Hingað koma þær í maíbyrjun eftir 15-20 þúsund km flug sem tók þær um 1½ mánuð. Oftast fjúga þær um 300 km á dag sem tekur þær 6-7 klst, en hvíla sig á milli. Kríur eru algengar í öllum landshlutum. Þær tínast í burtu í ágúst.
Aðalfæða kríunnar eru ýmsir smáfiskar og seiði ásamt margskonar svifdýrum. Einnig éta þær skordýr og orma af þurrlendinu.
Fjöldi eggja: 1 - 3
Eggjaskurn: brún með dökkum flikrum
Stærð eggja: 4,1 cm að lengd og 3 cm í þvermál
Kríur verpa í byggðum í margskonar landi bæði grónu og gróðurlausu. Margir fuglar reyna að verpa í nágrenni kríunnar til að njóta verndar hennar. Hreiðrið er aðeins lítil dæld og eggin eitt til þrjú, brún með dökkum flikrum. Hjónin sitja á eggjunum til skiptis og færa ungunum mat. Sennilega skipta kríur árlega um maka.
Mörgum finnast kríuegg sérstakt sælgæti. Bannað er að taka þau eftir 15 júní en fram að þeim tíma getur krían verpt aftur ef egg misfarast.
Latneska nafnið merkir "þernan frá Paradís".
Elsta kría sem fundist hefur var þrítug. Í farflugi sínu var hún búin að fljúga vegalengd sem samsvarar þremur ferðum milli tungls og jarðar.
Hettumáfar eru talsvert stærri en kríur og með dökkbrúna hettu sem nær niður á háls.
Sagt er að kríur hætti að verpa þar sem byggð fer í eyði.
Sílaþernur (Sterna hirundo) sem stundum flækjast hingað eru mjög líkar kríunni.
Maður sem stoppar stutt er sagður koma eins og kría á stein.
Sá sem bar á sér kríuhjarta átti að verða allra manna hugljúfi, það hefur ekki reynst rétt.
Á sænsku heitir krían silfurþerna (silvertärna).
Þegar krían kemur fyrst þá er hún mállaus og fær málið þegar hún hefur smakkað silungs-eða laxahreistur.
Þegar krían er komin, þá er aðeins eitt vorhret eftir, kríuhretið.