LOÐNA
Mallotus villosus
Loðnan er fremur lítill uppsjávarfiskur, oftast 1318 cm löng en getur orðið meira en 20 cm. Bolurinn er tiltölulega langur og þunnur og stirtlan stutt. Höfuðið er í meðallagi, og augun stór. Kjafturinn er í stærra lagi og neðri skolturinn nær fram fyrir þann efri. Loðnan hefur fremur stóra ugga. Bakugginn er rétt aftan við mitt bak og þar fyrir aftan er lágur veiðiuggi. Raufarugginn er aftast á kviði og er hann mun stærri á hængum en hrygnum um hrygningartímann. Kviðuggarnir eru undir miðjum kvið og eyruggarnir rétt aftan við tálknalokin. Þeir eru breiðir og stærri á hængum en hrygnum.
Hreistrið er smátt, þunnt og laust. Hliðarrákin er ofan til á hliðunum og er bein. Þegar nálgast hrygningu myndar hreistrið í nokkrum röðum ofan við rákina langa anga á hængnum. Þessir angar gera hann loðinn. Af þessu dregur loðnan nafn sitt.
Á baki er loðnan grænleit, en silfurlituð á hliðum og nánast hvít á kviði. Um hrygningartímann verða litirnir sterkari og hún fær rauðbláa slikju á hliðarnar. Ungir fiskar eru hálfgagnsæir.
Við Ísland finnst loðnan allt í kringum land. Á sumrin heldur hún sig fyrir norðan land allt norður til Jan Mayen en um miðjan vetur gengur kynþroska loðna að suður- og vesturströndinni til hrygningar. Loðnan er uppsjávarfiskur og heldur sig oftast nálægt yfirborði.
Meginútbreiðslusvæði loðnunnar er nyrst í Norður-Atlantshafi og í Norður-Íshafi. Syðri mörk útbreiðslu hennar við austanvert Atlantshafið eru í Suður-Noregi. Við austurströnd Norður-Ameríku nær útbreiðslusvæðið norðan frá Baffinslandi í Kanada suður til Þorskhöfða í norðaustanverðum Bandaríkjunum. Hún finnst einnig nyrst í Kyrrahafi, í Bieringshafi og Okhotskhafi.
Loðnan síar fæðu sína úr sjónum. Sjórinn streymir inn í útþaninn kjaftinn og út á milli tálknanna. Tálknin mynda síu sem kemur í veg fyrir að fæðudýrin skolist út með sjónum. Loðnan lifir fyrst og fremst á smáum svifkrabbadýrum og eru rauðáta og póláta aðalfæðan mestan hluta ævinnar. Stærsta loðnan étur þó einnig ljósátu og marflær.
Loðnan byrjar venjulega að hrygna seinni hluta febrúar og stendur hrygningin fram að mánaðamótum mars, apríl. Þó að loðnan sé uppsjávarfiskur hrygnir hún við botninn. Hrygningastaðir loðnunnar eru aðallega við suðurströndina, í Faxaflóa og Breiðafirði og eru á 10 til 100 metra dýpi. Hún hrygnir líka við Vestfirði og í litlum mæli við Norður- og Austurland. Þegar loðnan gengur til hrygningar myndar hún stórar, þéttar torfur sem geta verið tugir kílómetra á lengd.
Í sjálfri hrygningunni aðskiljast kynin. Hængarnir halda sig niðri við botninn og hrygnurnar fyrir ofan hængana. Þegar hrygnan er tilbúin rennir hún sér niður til hænganna og parast með því að hún leggst þétt upp að hlið eins hængsins. Þau synda síðan saman ofan á sandinum í örstutta stund. Á þeim tíma losar hrygnan öll hrognin ofan í sandinn og hængurinn frjóvgar þau um leið. Hrognin límast við sandkorn á botninum og haldast þar þangað til þau klekjast út. Eftir hrygninguna drepst loðnan.
Loðna var áður fyrr notuð í skepnufóður. Aðallega var um að ræða dauða loðnu sem skolaði á land eftir hrygninguna. Síðar var farið að veiða loðnu í litlum mæli í landnætur og nota til beitu. Upp úr 1960 hófust svo veiðar á loðnu í hringnætur. Þessar veiðar voru litlar í fyrstu en jukust ár frá ári þar til þær náðu yfir milljón tonnum árið 1978. Talið er að loðnustofninn sé stærsti fiskistofninn á Íslandsmiðum og er mikilvæg fæða annarra nytjastofna og hvala og sjófugla.
Á undanförnum áratugum hefur að jafnaði verið meira veitt af loðnu en af öllum öðrum nytjastofnum samanlagt. Um þessar mundir er loðnan einkum veidd í hringnót en einnig í flottroll. Nær allur aflinn er notaður í mjölframleiðslu og er mjölið notað í skepnufóður. Hrognafullar hrygnur hafa verið nýttar til manneldis í litlum mæli.
Hrognin klekjast út eftir nokkrar vikur og berast lirfurnar þá upp að yfirborði og hafast við í svifinu. Í fyrstu lifir lirfan á forðanæringu í kviðpoka en þegar sú næring er búin byrja lirfurnar að éta rauðátulirfur. Loðnulirfurnar vaxa hratt og eru orðnar um 5 cm í ágúst og kallast þá seiði. Um haustið og veturinn vaxa þær lítið enda lítið æti í sjónum á þeim tíma. Um vorið taka þær aftur að vaxa og byrja að líkjast foreldrunum í útliti. Lirfurnar og seiðin berast með straumum frá hrygningastöðvunum norður fyrir land og þar heldur loðnan sig þar til hún nær kynþroskaaldri. Sumarið fyrir hrygningu fer loðnan oftast í langa ætisgöngu norður í haf. Loðnan verður í flestum tilfellum kynþroska þriggja eða fjögurra ára. Örfáar loðnur verða kynþroska fyrr eða tveggja ára og sumar ekki fyrr en þær hafa náð fimm ára aldri.