LUNDI
Fratercula arctica
Hann er talinn algengasti fugl landsins. Lundar eru 28-35 cm langir og 400-600 g að þyngd. Vænghaf þeirra er 50- 65 cm.
Á vetrum heldur lundinn sig langt úti á reginhafi en þegar vorar kemur hann upp að landinu og fer fljótlega að laga til gamla hreiðrið sitt eða finna sér hreiðurholu ef hann er ungur og nýlega orðinn kynþroska. Hreiður lundans er grafið inn í jarðveg, sem næst sjónum. Þar er hann öruggur um ungann sinn fyrir ránfuglum og tófum.
Lundinn er einn af svartfuglunum. Segja má að hann sé allt sumarið í sparifötunum, þar sem hann stendur hnarreistur með hvíta bringu og svart bak, trefil og kollhúfu. Hann hefur rauðgula fætur, glæsinef og ákaflega sérstæða augnumgjörð. Vegna glæsileika síns hafa lundar líka verið kallaðir prófastar. Kvenfuglar líkjast mjög karlfuglum, þó er nef þeirra heldur nettara og minni.
Lundar kafa eftir mat sínum sem fyrst og fremst er ýmsir smáfiskar svo sem loðna eða sandsíli.Við köfunina nota þeir vængina og geta farið niður á 60 m dýpi. Þeir geta raðað mörgum sílum í nefið. Hvernig haldið þið að þeir fari að því að bæta nýju síli við án þess að missa hin?
Fjöldi eggja: 1
Eggjaskurn: ljósleit
Stærð eggja: 6,5-7 cm á lengd og 4,5 cm í þvermál
Lundar eru félagslyndir og verpa í stórum byggðum þar sem þeir gera sér hreiðurholur sem þarf að laga til á hverju vori. Pörin halda saman alla ævi, þó eru þau aðeins saman yfir varptímann. Varptíminn hefst um miðjan maí. Eggið er aðeins eitt og liggja hjónin á því til skiptis. Unginn yfirgefur holuna um mánaðamótin ágúst, september og fer þá út á sjó.
Íslendingar hafa lengi nytjað lunda, sérstaklega kjötið. Unginn, sem ýmist kallast kofa eða pysja, var áður veiddur til matar en nú eru fullorðnir lundar oftast veiddir í háfa á bjargbrúnunum. Fólk borðar lundann ýmist ferskan, saltaðan eða reyktan.
Á veturna missir lundinn glæsinefið og breytir um lit og kallast þá kolapiltur.
Talið er að um þrjár milljónir lundapara verpi árlega á Íslandi.
Þeir verða kynþroska 5 ára gamlir en vorið áður eru þeir byrjaðir að leita sér að hreiðurholum eða að grafa sína eigin, sem þeir ljúka svo við næsta ár.
Á hverju hausti keppast börn og unglingar í Vestmannaeyjum við að bjarga sem flestum pysjum og sleppa þeim til sjávar.
Á ensku kallast lundinn puffin.