MOSADÝR
Mosadýr eru sambú aragrúa örsmárra dýra sem eru það lítil að erfitt er að greina einstök dýr nema í víðsjá. Lögun sambúsins getur verið afar fjölbreytileg og fer eftir því hvaða tegund á í hlut. Stundum mynda þau þunnar hvítar skánir á steinum, skeljum eða þörungum, stundum greinótt tré eða blaðlaga vængi.
Sambúin myndast við að ný dýr vaxa út úr móðurdýri án þess að tengslin milli dýranna rofni. Þetta endurtekur sig í sífellu og sambúið stækkar.
Mosadýr lifa á hörðum botni í fjörunni eða á grunnsævi.
Þegar dýrin verða kynþroska eru þau tvíkynja en æxlun verður milli aðskildra dýra. Sviflægar lirfur myndast sem berast um nokkurn tíma með straumum áður en þær setjast á botninn á steina, skeljar eða þörunga og vaxa og mynda nýtt sambú.