NÖKKVI
Poyplacophora
Nökkvar eru lindýr, skyldir kuðungum og samlokum. Þegar horft er ofan á nökkva sést að þeir eru flatvaxnir og sporöskjulaga. Flestar tegundir eru 0,5 til 4 cm á lengd en til eru tegundir sem verða mun stærri. Undir dýrinu er fótur sem dýrið mjakar sér áfram á, en það getur sogað sig fast með honum ef reynt er að losa það af botninum. Á baki hafa nökkvar skel sem gerð er úr átta aflöngum plötum sem liggja þvert yfir dýrið og skarast.
Ef dýrið er losað af botni hringar það sig upp þannig að skelplöturnar hylja allt dýrið. Undan skelinni, umhverfis dýrið, gengur kápa sem hylur fótinn og höfuðið. Undir kápunni á hliðum dýrsins er röð af fjaðurlaga tálknum. Nökkvar hafa hvorki augu né fálmara á höfði, en í þunnri húð sem hylur skeljarnar eru ljósnæmar skynfrumur. Munnurinn er fremst, undir dýrinu, framan við fótinn.
Nökkvar lifa á steinum eða klöppum, neðst í fjörunni eða neðan fjörunnar, allt niður á nokkur hundruð metra dýpi. Hér við land lifa fáar tegundir. Í fjörunni lifir lítil tegund, hvítnökkvi, sem heldur sig undir steinum. Í þarabeltinu neðan fjörunnar eru tegundirnar rauðnökkvi og flekkunökkvi mjög algengar. Þær eru nokkuð stærri en hvítnökkvinn, sú fyrrnefnda er rauðbrún með vínrauða kápu en hin með marmaramynstraða skel og rauðflekkótta kápu
Nökkvar lifa flestir á þörungum sem þeir skrapa af steinum með tenntri skráptungunni. Það eru þó til tegundir sem eru rándýr og lifa á svömpum, smákrabbadýrum eða götungum
Ekki er hægt að greina kyn nökkva á útliti en við æxlun losa þeir kynfrumur í sjóinn þar sem frjóvgun verður. Mikilvægt er að hrogn og svil losni samtímis. Eftir frjóvgun berast eggin upp undir yfirborð þar sem þau klekjast út. Lirfan lifir um tíma í svifinu og berst um með straumum. Þegar hún hefur náð fullum þroska finnur hún sér hentugan botn að setjast á, myndar skel og tekur upp hætti foreldranna.