OLNBOGASKEL

Tectura tessulata

Olnbogaskelin hefur hettulaga skel sem getur orðið allt að 2 cm í þvermál og 1 cm á hæð. Skelin er keilulaga en toppurinn er þó nokkuð framan við miðju. Munnopið er vítt og egglaga. Yfirborðið er slétt. Óreglulegt geislamynstur er utan á skelinni með brúnum eða rauðleitum litflötum sem hríslast út frá toppnum.

Á höfði dýrsins eru tveir fálmarar og sitja augun ofan á þykkingum neðst á fálmurunum.


Olnbogaskelin er allt í kringum Ísland þar sem hún lifir í neðri hluta fjörunnar og á grunnsævi niður á um 40 m dýpi. Hún lifir í grjót- og klapparfjörum og heldur sig þar sem rauðir skorpuþörungar þekja steinana.

Olnbogaskelin lifir við strendur Evrópu frá Norður-Noregi suður til Ermarsunds. Við strendur Norður-Ameríku lifir hún frá Labrador í Kanada suður til Main fylkis í Bandaríkjunum. Hún lifir einnig í Kyrrahafi.

Olnbogaskelin lifir á rauðum skorpuþörungum sem mynda samfellda þekju á klöppum eða steinum. Með tenntri skráptungunni skrapar olnbogaskelin efsta lagið af þörungunum sem hún étur. Á þörungnum vex nýr vefur fljótt aftur upp af sárinu. Olnbogaskelin hreyfir sig lítið úr stað og má finna sama dýrið á sama blettinum í marga mánuði eða jafnvel ár.

Á sumrin hrygnir olnbogaskelin eggjum í litla slímmassa sem hún festir undir steina eða í klettasprungum þar sem alltaf er rakt. Eftir skamman tíma klekjast eggin út og verða sviflægar lirfur. Þær hafast við í svifinu í nokkrar vikur og rekur þá með straumum burt frá fæðingarstaðnum. Eftir nokkrar vikur setjast lirfurnar aftur á botninn, þær hafa þá myndað um sig skel og líkjast foreldrunum í útliti en eru þó miklu minni.