SENDLINGUR

Calidris maritima

Sendlingar eru smávaxnir, þybbnir og fremur fótstuttir fuglar. Þeir eru flikróttir og grábrúnir að lit og því í mjög góðum felubúningi. Þeir hafa gulleita fætur og gulleitt nef sem dökknar að framan. Sendlingar eru 20–22 cm á lengd, um 80 g. Vænghaf 42–46 cm. Sendlingarnir eru víðast um landið algengustu fjörufuglar vetrarins en á vorin halda þeir upp til fjalla þar sem þeir verpa. Þess vegna má segja að sendlingurinn sé farfugl milli fjöru og fjalls. Í fjörunum má oft sjá stóra hópa þar sem fuglarnir fljúga svo þétt og samhæft að furðulegt er að þeir skuli aldrei rekast hver á annan. Meðan hásjávað er sitja þeir oft rólegir, svo þétt að ekki sést niður á milli þeirra.


Spila myndband

Sendlingur Sendlingar eru hánorrænir fuglar sem lifa víða á norðurslóðum. Ferðalög þeirra milli landa eru enn óljós. Á veturna er mikið af fuglum hér sem verpa norðar. Á sama tíma eru margir íslensku fuglanna í utanlandsferðum.

Í fjörunum éta sendlingar ýmis smádýr svo sem þangdoppur og marflær. Kvenfuglarnir eru með svolítið lengri nef og geta því náð í fæðu sem karlarnir ná ekki. Á sumrin éta sendlingar einnig ýmis smádýr, sem þó eru af annarri gerð en fjörurnar bjóða upp á.

Fjöldi eggja: 4
Eggjaskurn: ljós með dökkum flikrum
Stærð eggja: 4 cm á lengd og þvermál 2,5 cm

Hreiðurgerðin er lítilfjörleg. Varptíminn er í júní og eggin oftast fjögur. Í upphafi liggja foreldrarnir álíka lengi á eggjunum en smám saman styttist sá tími sem móðirin liggur á og að lokum tekur karlfuglinn við og sinnir síðan einn ungunum. Ef karlfugl deyr sér þó kvenfuglinn um ungana og kemur þeim niður í fjöru á haustin.

Sendlingar eru fremur gæfir fuglar. Þó þeir séu aðeins um 20 cm á hæð og því ekki mikill matur í hverjum fugli voru þeir veiddir til matar fyrr á öldum. Þannig getur matarleysi farið með menn.

Gömul nöfn á sendlingi eru selningur, fjallafæla, fjörumús og fjölmóði.

Fyrr á öldum héldu menn að sendlingar fjörunnar og sendlingar fjallsins væru mismunandi fuglategundir.

Á ensku heitir sendlingurinn sandpiper.

Latneska nafnið maritima tengir fuglinn við mar, sem er annað nafn á sjónum.