SJÓARKRÆÐA
Mastocarpus stellatus
Sjóarkræða er rauðþörungur sem er 5 til 10 cm á hæð með greinum sem eru um 0,4 til 0,8 cm á breidd. Hún vex upp af skífulaga festu. Sjóarkræða er óreglulega kvíslgreind og eru greinarnar rennulaga. Þegar sjóarkræðan er fullvaxin eru separ á greinunum og eru flestir þeirra inni í rennunni. Greinarnar eru stinnar og geta verið uppundnar eða hlykkjóttar. Sjóarkræða er dumbrauð, svört eða rauðbrún á litinn. Ef hún lendir í sterku sólarljósi getur hún upplitast og orðið ljósrauð eða gulleit. Þar sem sjóarkræða vex mjög þétt líkist hún samfelldri mosaþembu.
Önnur tegund rauðþörunga, fjörugrös, líkist sumum afbrigðum sjóarkræðunnar. Munurinn á tegundunum felst í að greinar sjóarkræðunnar eru rennulaga en fjörugrasanna flatar. Separnir á blöðum sjóarkræðunnar afhjúpa einnig tegundina.
Sjóarkræða lifir í Norður-Atlantshafi norðan frá Hvítahafi suður til Portúgal. Hún er á Grænlandi og á austurströnd Norður-Ameríku frá Nýfundnalandi til Norður-Karólína.
Norðurmörk útbreiðslu sjóarkræðunnar liggja um Ísland. Hún finnst þó í öllum landshlutum. Hún er algeng við Suðvestur- og Vesturland. Við Norðurland finnst hún víða en er hvergi algeng og við Austurland finnst hún einungis á örfáum stöðum. Hún er algengust í fremur skjólsælum fjörum þar sem hún myndar sums staðar samfellt svart belti neðst í fjörunni. Þar sem er minni hreyfing vex hún á klöppunum undir þangi. Hún getur vaxið á svæðinu frá miðri fjöru og niður á um 5 m dýpi neðan fjörunnar.
Líklegt er að sjóarkræða hafi verið nýtt til matar hér á landi fyrr á öldum með fjörugrösum sérstaklega á svæðum þar sem lítið var af þeim síðarnefndu. Tegundirnar vaxa gjarnan hvor innan um aðra í fjörunni og má nota báðar á sama hátt til grautargerðar.