SKATA
Raja batis
Fullvaxin skata er 150 til 200 cm á lengd. Hún er flatvaxin með oddmjóa trjónu. Eyruggar eru ummyndaðir í vængi eða börð sem eru samvaxin haus og bol. Aftur úr bolnum gengur hali sem er svipaður að lengd og bolurinn. Kviðuggar liggja aftur úr kverkunum milli barðanna og halans. Hjá hængum eru kviðuggarnir ummyndaðir í getnaðarlim eða göndla. Aftast á hala eru tveir bakuggar.
Skatan er grá að ofan og hvít að neðan. Augun eru ofan á skötunni og einnig innstreymisop fyrir sjóinn sem berst til tálknanna. Kjaftur og tálkn eru hins vegar neðan á skötunni. Skatan er brjóskfiskur.
Hængarnir frjóvga eggin inni í hrygnunum og hrygnan gýtur síðan eggjum í hylki sem eru kölluð pétursskip. Þar þroskast eggið og lirfan. Við klak eru seiðin um 21 cm.