SKOLLAÞVENGUR
Chorda filum
Skollaþvengur er brúnþörungur sem er 2 til 6 metrar á lengd og 3 til 6 mm í þvermál. Lítil skífulaga festa er neðst. Upp af henni er skollaþvengurinn þráðlaga, sívalur og holur að innan. Hann er ógreindur og sleipur viðkomu. Utan um þráðinn eru litlaus hár sem sjást í sjó sem ljósgrá ló.
Skollaþvengur er einær, hann vex upp snemma á vorin og hverfur aftur seint á haustin. Mestur vöxtur er frá áramótum til byrjunar sumars og getur vaxarhraðinn við bestu skilyrði verið meira en einn cm á dag.
Skollaþvengur lifir í Norður-Atlantshafi frá Norður-Noregi suður til Portúgal. Við austurströnd Norður-Ameríku lifir tegundin norðan frá Labrador suður til New Jersey í Bandaríkjunum. Skollaþvengur lifir einnig nyrst í Kyrrahafi.
Við Ísland er skollaþvengur algengur allt í kringum land. Hann vex frá 1 til 15 m dýpi. Algengastur er hann á fremur skjólsælum stöðum en getur einnig vaxið á brimasömum stöðum. Skollaþvengur vex venjulega á klöppum eða grjóti en á skjólsælum stöðum getur hann einnig vaxið á litlum steinvölum eða skeljum.
Skollaþvengur hefur ekki verið nýttur hér við land en er notaður til matar í Japan.