FÝLL

Fulmarus glacialis

Fýllinn kallast múkki á sjómannamáli. Hann er algengasti fuglinn sem fylgir skipum á norðlægum höfum. Fýllinn er um 50 cm langur og tæplega 1 kg að þyngd. Hann er ljósgrár á baki og efri hluta vængja, en fiðurhamur hvítur að öðru leyti. Fætur og nef eru grágul. Enginn munur er á útliti eftir aldri, kyni eða árstíðum. Nef fýlsins er mjög merkilegt, því að nasirnar liggja ofan á því í pípum.

Fýlar eru miklir flugsnillingar, sem geta flogið tímunum saman rétt yfir síbreytilegum öldunum án þess að reka vængina nokkru sinni í yfirborðið.

Þeir eru hljóðlátir fuglar nema í varpi þar sem þeir nöldra stanslaust.


Spila myndband

Fýll Fýlar eru hvarvetna í norðurhöfum og verpa víða bæði við N-Kyrrahaf og N-Atlantshaf allt suður til Frakklands. Þeim hefur fjölgað mikið síðustu tvær aldirnar, sennilega mest vegna aukinna fiskveiða.

Fýlar éta ýmsa yfirborðsfæðu, þeir fylgja gjarnan fiskiskipum í von um bita. Segja má að þeir séu fljúgandi lýsisverksmiðjur, því að þeir breyta fæðunni í orkuríkt lýsi sem þeir geta svo t.d. fært ungunum. Ef þeir styggjast geta þeir ælt á andstæðinginn kraftmikilli lýsisgusu. Fáir óska eftir henni

Fjöldi eggja: 1
Eggjaskurn: hvít
Stærð eggja: 7 cm á lengd og 5 cm í þvermál

Fýlarnir eru miklir úthafsfuglar. Þeir dvelja á hafinu fyrstu tíu árin, eða þar til þeir verða kynþroska, og skreppa síðan aðeins í land til að verpa. Þeir verpa í byggðum oftast í björgum skammt frá sjó. Þeir stunda einkvæni og varir hjúskapurinn ævilangt.

Hreiðurgerðin er engin og eggið er aðeins eitt, stórt og hvítt. Enginn íslenskur fugl er jafnlengi að unga út eggi sínu og fýllinn eða tæpa tvo mánuði, síðan er unganum færður matur í hreiðrið í jafnlangan tíma. Um haustið er unginn því orðinn svo stór og feitur að hann er þyngri en foreldrar hans og á erfitt með flug.

Bæði eggin og hinir feitu fýlsungar þóttu góð búbót. Í byrjun tuttugustu aldar fór að bera á illskeyttri lungnabólgu, sem gat orðið banvæn. Það var s.k. páfagaukaveiki, sem rakin er til sýkils sem fýlar og fleiri fuglar báru. Fýlataka var því bönnuð hér árið 1940 en hefur verið leyfð á ný. Rúmföt með fýladún gáfu þeim sem þau notuðu einkennandi lykt.

Fyrstu heimildir um fýlsvarp á Íslandi eru frá árinu 1640 úr Grímsey. Fýll er dregið af lýsingarorðinu fúll og latneska nafnið merkir hinn fúli máfur íssins.

Fýll verpir hér lengst frá sjó í um 50 km fjarlægð í Markarfljótsgljúfrum.

Fætur fýlsins eru svo veikburða að hann getur ekki staðið lengi í þá.

Á norsku og færeysku kallast fýllinn havhest (sæhestur). Fýllinn er ekki einn af máfunum, heldur s.k. pípunefur eins og skrofur og sæsvölur.

Fýlarnir, sérstaklega þeir ungu, þurfa að fá vind í vængina til að ná sér á loft.