SVAMPAR

Porifera

Svampar lifa í fjörum og á grunnsævi. Í fjörum er þá helst að finna neðarlega í klettasprungum eða inn undir stórum steinum þar sem þeir geta þakið allstóra fleti. Svampar eru taldir meðal frumstæðustu dýra. Þeir eru fastir á botni og geta haft ýmiss konar lögun. Þeir geta t.d. myndað skánir á steinum, verið eins og blöðkur eða verið bikarlaga og af ýmsum litum. Þeir geta ekki hreyft sig og minna á plöntur, enda voru þeir lengi framan af taldir meðal plantna.

Það var ekki fyrr en á 19. öld sem sýnt var óyggjandi fram á að um var að ræða dýr. Margir svampar hafa innri stoðgrind sem gerð er úr örsmáum kísil- eða kalkhlutum sem geta verið nálar- eða stjörnulaga en aðrir hafa stoðgrind úr prótíntrefjum.


Svampar geta fjölgað sér þannig að brot sem losnað hefur frá svampi festist við botn og vex upp í nýjan svamp. Æxlunarhnúðar með nokkrum svampfrumum myndast hjá sumum tegundum, losna frá, setjast á botn og vaxa upp í nýjan svamp.

Kynæxlun er einnig þekkt hjá svömpum, þeir eru oftast tvíkynja en kynæxlunin fer þó fram milli tveggja einstaklinga. Sæði berst með vatnsstraum inn um op á líkama kvendýrsins þar sem eggið frjóvgast. Eftir frjóvgun þroskast lirfa sem berst út úr svampinum og lifir í svifinu um tíma þar til hún sest á botn, myndbreytist og vex upp í nýjan svamp.