SÆFÍFILL

Actinaria

Hér við land lifa allmargar tegundir sæfífla. Flestir eru á bilinu 5 til 30 cm á hæð og 5 til 15 cm í þvermál. Þá er að finna bæði í fjörunni og neðan fjörunnar allt niður á nokkur hundruð metra dýpi. Sæfíflar eru skyldir hveldýrum og kóröllum.

Sæfíflar eru botndýr. Flestar tegundir festa sig við steina, klappir, skeljar eða annað hart undirlag en nokkrar grafa sig ofan í mjúkan botn. Neðst á sæfíflum sem lifa á hörðu undirlagi er sóli sem þeir nota til að halda sér föstum. Ekki eru þeir þó alveg límdir við botninn en geta hreyft sig hægt úr stað. Hjá sæfíflum sem lifa á sand- eða leirbotni er oftast þykkildi neðst sem sæfífillinn notar til að halda sér ofan í botninum en hann getur líka notað þykkildið sem akkeri þegar hann færir sig til. Líkaminn er sívalur, leðurkenndur og án stoðgrindar. Efst á dýrinu er krans af fæðuörmum.

Fæðuarmarnir eru sléttir, breiðastir neðst og mjókka til endanna. Þeir eru mismargir eftir tegundum. Sjaldan eru þeir færri en 12 en flestir eru þeir á sænellikkunni sem hefur allt að 500 stutta arma. Um opið sem er ofan á miðju dýrinu taka dýrin inn fæðu og skila einnig út úrgangi.


Spila myndband

Á örmunum eru sérstakar, örsmáar stingfrumur sem sæfíflarnir nota við að veiða bráð. Þegar bráðin kemur nærri örmum sæfífilsins skjótast eitraðar nálar úr stingfrumunum í bráðina og lama hana. Á örmum sumra tegunda er slím sem bráðin festist í ef hún snertir armana. Armarnir færa bráðina síðan að munnopinu. Bráð sæfífla er aðallega smávaxin krabbadýr en litlir fiskar og seiði einnig.

Sæfíflar hafa bæði kynæxlun og kynlausa æxlun. Við kynæxlun frjóvgast eggið inni í kvendýrinu og þroskast þar fram að klaki. Þá berast lirfurnar út um munnopið og fljóta upp að yfirborði þar sem þær hafast við í svifinu um tíma áður en þær setjast á botninn og taka upp lifnaðarhætti foreldranna. Hjá einstaka sæfíflum taka lirfurnar út allan sinn þroska í móðurkviði og setjast beint á botninn eftir fæðingu. Kynlaus æxlun verður við að sepi myndast neðst úr dýrinu, hann losnar síðan frá og verður að nýjum einstaklingi. Sumir sæfíflar geta hlutast í sundur og orðið að tveimur eða fleiri einstaklingum sem nýmynda þá hluta sem vantar eftir skiptinguna. Ekki er mikið vitað um langlífi sæfífla en þó er vitað að sumar tegundir geta lifað í tugi ára.