SÆKÖNGULÓ
Pycnogonida
Hér við land hafa aðeins fáar tegundir sæköngulóa fundist. Þær líkjast landköngulóm í útliti að því leyti að þær hafa átta langar, mjóar og liðskiptar lappir. Sæköngulær eru þó ekki mjög skyldar köngulóm á landi. Nánustu ættingjar þeirra eru talin vera krabbadýr.
Hjá flestum tegundum sæköngulóa eru lappirnar grannar og oftast margfalt lengri en búkurinn. Búkurinn er einnig grannur og liðskiptur, oftast gerður úr þremur eða fjórum liðum. Framan á honum er haus með þykkum rana sem er jafnlangur eða lengri en búkurinn hjá sumum tegundum. Munnurinn er fremst á rananum. Á hausnum er eitt par af gripörmum og framan við þá par af fæðuörmum. Fremst á bunkum, rétt framan við fremsta fótaparið, hafa karldýr flestra tegunda sæköngulóa par af örmum sem þær festa eggin við á meðan þau þroskast.
Flestar tegundir sæköngulóa eru litlar. Búkur þeirra er aðeins einn til fimm mm á lengd. Þó er ein tegund sem lifir á 100 til 200 m dýpi úti á landgrunninu miklu stærri. Hún er með um fimm cm langan búk og með löppunum getur hún orðið um 25 cm í þvermál.
Fjörusæköngulóin er fremur klunnaleg af sækönguló að vera og hefur stuttar og digrar lappir.
Sæköngulær finnast í grjót- og klapparfjörum þar sem þær hafast við undir steinum neðst í fjörunni. Neðan fjörunnar lifa sæköngulær mest á hörðum botni. Oft sitja þær á öðrum dýrum eins og hveldýrum.
Sæköngulær eru rándýr og lifa á ýmsum smáum dýrum sem sitja föst á botninum svo sem hveldýrum og mosadýrum. Einnig er talið að þær geti étið stærri dýr eins og sæfífla. Þær éta ýmist með því að reka ranann inn í dýrið og bíta í eða draga fæðubita að munninum með gripörmunum sem eru á hausnum.
Við æxlun hanga pörin saman í nokkra daga í senn. Eggin eru geymd inni í holrúmi í fótum kvendýrsins fyrir mökun. Þegar eggjunum er gotið eru þau fest saman í klasa og fest við armana sem eru fremst á búk karldýrsins. Þar þroskast þau og klekjast síðan út. Við klak er ungviðið ólíkt foreldrunum, hefur til dæmis aðeins þrjú pör af örmum í stað sex eða sjö. Ungviðið heldur sig á karldýrinu meðan þroskunin stendur yfir, smám saman fjölgar fótum og örmum og ungviðið fær jafnframt á sig mynd foreldranna.