SÖL
Palmaria palmata
Söl eru rauðþörungar. Plantan hefur lítinn stilk sem er sjaldan
lengri en 5 mm. Upp af stilknum vex oftast eitt en stundum fleiri blöð (stofnblöð). Út úr jöðrum stofnblaðsins vaxa hliðarblöð sem eru aflöng og þynnri en stofnblaðið. Heildarlengd sölva er venjulega 20 til 30 cm. Söl eru dökkrauð á lit þar sem þau vaxa í fullsöltum sjó. Söl sem vaxa í fjörunni geta hins vegar upplitast og orðið gul eða græn. Sérstaklega ber á því ef þau lenda í sterku sólarljósi eða ef þau vaxa í seltulitlum sjó, til dæmis nálægt árósum. Neðsti hluti plöntunnar er þó alltaf rauður.
Söl vaxa aðallega snemma á vorin. Algengast er að þau vaxi upp af brotum af gömlum stofnblöðum, sem hafa orðið eftir frá fyrra ári (sölvamóðir). Söl byrja að þroskast seinni hluta mars og eru venjulega fullsprottin í lok maí eða byrjun júní. Lítill vöxtur er síðan yfir sumarið en þá safna sölin í sig forðasykrum. Um haustið byrja plönturnar síðan að slitna. Fyrst falla hliðarblöðin af en smám saman slitnar einnig af stofnblaðinu og lifir aðeins hluti af því yfir veturinn.
Næsta vor vaxa ný hliðarblöð aftur út frá jöðrum gamla stofnblaðsins. Þannig getur hver planta lifað í nokkur ár. Eftir að vöxtur hættir í byrjun sumars, fara ýmsar ásætur, dýr og plöntur að taka sér bólfestu á sölvunum og er venjulega mest um ásætur á blöðunum í lok sumars.
fjallagrös og sjávarsöl / svo er fyrir að þakka.
(Höfundur óþekktur)
Við Ísland er söl að finna allt í kringum land. Þau vaxa aðallega í fjörunni og má finna þau frá miðri fjöru, niður fyrir stórstraumsfjörumörk. Neðan fjörunnar er algengt að þau vaxi á þarastilkum en hins vegar er sjaldgæft að sjá þau vaxa á botninum neðan fjörunnar. Þar sem aðstæður eru góðar geta söl verið ríkjandi á allstórum svæðum. Sérstaklega á þetta við um malarfjörur þar sem nokkurra ferskvatnsáhrifa gætir.
Elstu rituðu heimildir um notkun þörunga til manneldis á Vesturlöndum eru í Egils sögu Skallagrímssonar. Þar segir frá því að Þorgerður dóttir Egils ginnir hann til að éta söl og þar með til að hætta við að svelta sig í hel vegna harms yfir dauða sona sinna. Allt frá landnámstíð hafa söl því verið nýtt hér á landi. Sölin voru tínd um stórstraumsfjöru seinni hluta sumars og snemma á haustin og síðan þurrkuð á völlunum fyrir ofan fjöruna. Þurr söl fluttu menn heim, þar sem þau voru geymd í tunnum undir fargi til notkunar um veturinn. Þau voru étin eins og þau komu upp úr tunnunni og gjarnan haft smjör með. Söl eru enn tínd til matar, bæði í Vestmannaeyjum og í Ölfusi og sums staðar eru þau seld í verslunum.