TOPPSKARFUR

Phalacrocoax aristoteles

Á Íslandi lifa tvær tegundir skarfa, dílaskarfur og toppskarfur. Þetta eru líkir fuglar, dökkir að lit með grænleita slikju. Þeir standa uppréttir á landi og eru á svipinn eins og þeim finnist allt í kringum þá frekar ómerkilegt. Oft standa þeir og blaka vængjunum, þá er sagt að þeir séu að messa. Enginn maður veit hvers vegna þeir láta svona. Hugsanlega eru þeir að þurrka sig eða að kæla eftir góða máltíð eða ef til vill eitthvað allt annað.

Seinni hluta vetrar og fram á vor ýfa toppskarfarnir upp fjaðrir ofan á höfðinu svo úr verður nokkurs konar toppur sem nafn þeirra er dregið af. Skarfar eru djúpsyndir og teygja fram höfuðið á flugi.

Toppskarfar eru 65-75 cm langir og um 2 kg að þyngd. Vænghafið er 90-100 cm.


Spila myndband

Toppskarfur Toppskarfar lifa við flestar strendur Evrópu, allt suður í Miðjarðar- og Svartahaf. Við Ísland er útbreiðsla þeirra bundin við Vesturland með aðalbækistöðvar við Breiðafjörð.

Skarfar eru fyrst og fremst fiskætur. Þeir kafa eftir bráðinni, ýmsum smáfiskum, sem þeir renna svo niður í heilu lagi með hausinn á undan.

Fjöldi eggja: 3-4
Eggjaskurn: ljós
Stærð eggja: 6,5 cm að lengd og 4 cm í þvermál

Toppskarfar verpa í byggðum við sjó í lágum klettum, jafnvel þar sem þeir geta orðið fyrir skvettum. Hreiðrið er stór dyngja úr þangi og þara. Ungarnir eru í fyrstu naktir og dökkir. Báðir foreldranir sjá um mataraðdrætti. Ólíkt dílaskarfi er toppskarfurinn gæfur í varpi.

Skarfar hafa verið talsvert nýttir hér á landi. Eggin tínd og stálpaðir ungar veiddir. Það er sérstakt við eggin að ysta lag skurnsins er mjög mjúkt og þau hlaupa ekki við suðu.

Gömul skarfsheiti eru hraukur, hrókur og sæhrafn.

Skarfar vísuðu sjómönnum á fisk meðan engin fiskleitartæki voru til.

Aristóteles sem fuglinn er kenndur við var grískur náttúruspekingur (384-322 f.Kr).

Karlskarfar meðal manna þykja frekar leiðinlegir.

Galdramenn fyrr á öldum notuðu skarfa við athafnir sínar.