KÓLGUGRÖS

Devaleraea ramentacea

Kólgugrös eru 5 til 25 cm langir, óreglulega greinóttir rauðþörungar. Oftast er einn stofn sem er þéttvaxinn hliðargreinum sem greinast aftur. Ystu greinarnar eru holar að innan en stofngreinarnar stinnar og gegnheilar. Stofngreinarnar eru dökkrauðar eða svartar en ytri greinarnar rauðar. Á vorin og sumrin upplitast ytri greinarnar og verða gul- eða grænleitar.

Kólgugrös eru fjölær. Fyrsta árið vex upp ein grein. Næsta ár verður hún að stofngrein en aðrar greinar vaxa út úr henni neðan til. Síðan bætast enn við greinar árið þar á eftir. Talið er að kólgugrös geti orðið þriggja til fjögurra ára gömul.


Kólgugrös eru kaldsjávartegund sem vex í Norður-Íshafinu og nyrst í Norður-Atlantshafi. Suðurmörk útbreiðslu hennar eru í Þrándheimsfirði í Noregi og Færeyjum þar sem þau eru afar sjaldgæf. Við austurströnd Norður-Ameríku nær útbreiðslan frá Baffinslandi suður til Nýfundnalands í Kanada.

Kólgugrös eru algeng í fjörum umhverfis allt Ísland. Plantan vex á klöppum eða stórum steinum í fjörunni. Hún vex í skjólsælum og miðlungsbrimasömum fjörum. Mest er um kólgugrös neðan við miðja fjöru.